Fyrir helgi skrifuðu fulltrúar Hörgársveitar, Kvenfélags Hörgdæla og Leikfélags Hörgdæla undir samning um breytingar á eignarhaldi félagsheimilisins Mela í Hörgárdal, sem felur í sér að Leikfélag Hörgdæla eignast húsið að fullu, með því meginskilyrði að sú starfsemi sem fram fer í húsinu stuðli að blómlegu starfi félagsins og styðji við menningarlífið í sveitarfélaginu og héraðinu öllu.
Leikfélag Hörgdæla hefur verið aðalnotandi Mela mörg undanfarin ár og sett þar upp leikverk af ýmsu tagi við góðan orðstír. Með samningnum er rennt enn styrkari stoðum en áður undir hið blómlega starf sem leikfélagið hefur staðið fyrir.
Með samningnum lýkur eignaraðild Kvenfélags Hörgdæla að félagsheimilinu, sem staðið hefur óslitið allt frá upphafi. Kvenfélagið hefur verið einn af burðarásum samfélagsins í Hörgárdal og nágrenni um áratugaskeið og gert er ráð fyrir að samningurinn verði til þess að styrkja félagið.
Félagsheimilið Melar í Hörgárdal var upphaflega byggt árið 1934, en hefur síðan verið stækkað og endurbætt, og er nú 260 m2 að stærð í góðu ásigkomulagi. Fyrir utan að henta vel til leiksýninga er húsið kjörinn staður fyrir fundi, veislur, ættarmót og hvers konar mannfagnaði.