Leikfélag Fjallabyggðar frumsýnir Sólarferð

Leikfélag Fjallabyggðar mun frumsýna gamanleik í nóvember sem heitir Sólarferð. Alls verða 7 leikarar sem taka þátt.  Verkið er samið af Guðmundi Steinssyni og er leikstjórinn Ingrid Jónsdóttir. Fjölmargir aðrir koma að sýningunni og eru á bakvið tjöldin við uppsetningu. Fyrsta sýning verður í Menningarhúsinu Tjarnarborg, föstudaginn 10. nóvember næstkomandi.

Guðmundur Steinsson (1925-1996) er meðal okkar fremstu leikskálda. Leikritið Sólarferð, sem er eitt hans vinsælasta verk, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1976 við frábærar undirtektir. Verkið hefur verið sett upp einnig af Leikfélaginu Selfoss árið 2012 og af Þjóðleikhúsinu 2008 undir leikstjórn Benedikts Erlingssonar.

Um verkið:

Við fylgjumst með hópi íslenskra ferðamanna sem eru samankomnir á spænskri sólarströnd. Þessa dugnaðarforka, afkomendur víkinganna, þyrstir að njóta lífsins lystisemda á þessum heita, framandi stað, þar sem allt flóir í ódýru áfengi og boð og bönn hins venjubundna lífs eru víðs fjarri. Leit ferðafélaganna að lífshamingju í þessu „himnaríki holdsins“ birtist okkur á bráðfyndinn hátt, en undir niðri kraumar sársauki sem erfitt er að leyna.

Um höfundinn:

Guðmundur Steinsson var fæddur 19. apríl 1925 á Eyrarbakka. Hann ólst upp í Reykjavík og varð stúdent frá MR 1946. Næsta áratuginn dvaldi hann erlendis við nám og ferðalög og seinna var hann fararstjóri til Suðurlanda. Guðmundur kenndi í Iðnskólanum 1959-65. Fyrsta skáldsaga hans Síld kom út 1954 og Maríumyndin 1958. Eftir það sneri hann sér alfarið að leikritun og hefur síðan verið mikilvirkur leikritahöfundur.