Leggja til endurbætur á grasvelli í stað gervigrasvallar í Ólafsfirði

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur lagt til að grasvöllurinn í Ólafsfirði, heimavöllur KF verði endurbættur en ekki skipt út fyrir gervigras. Efla verkfræðistofa var fengin til að meta vinnuskjal frá Fjallabyggð og skilaði inn minnisblaði um málið.  Metinn var kostnaður við gerð nýs gervigrasvallar og reksturs ásamt að meta kostnað við úrbætur á núverandi grasvelli miðað við að hann standist allar kröfur sem gerðar eru til grasvalla.
Áætlað var að stofnkostnaður nýs gervigrasvallar yrði nálægt 300 m.kr. og rekstrakostnaður á ári nálægt 36 m.kr. m.v. að skipt sé um gervigras á 10 ára fresti. Áætlaður kostnaður við endurnýjun núverandi grasvallar er áætlaður 55 m.kr. og rekstrarkostnaður 8 m.kr. Kostnaðartölur varðandi gervigrasvöll eru fengnar úr reynslutölum ráðgjafa og frá KSÍ. Ofangreind gögn og annað sem að málinu snýr hefur verið kynnt fyrir forsvarsfólki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar með það að markmiði að halda félaginu upplýstu og gefa færi á athugasemdum.
Miðað er við að framkvæmdir hefjist sem fyrst að aflokinni yfirstandandi leiktíð og að völlurinn verði leikhæfur vorið 2023. Hönnun og framkvæmd skal unnin í sem allra bestu samstarfi við notendur vallarins.
Meistaraflokkur KF hefur verið að keyra til Akureyrar yfir veturinn til að æfa með tilheyrandi tíma og kostnaði.
KF og Dalvík eru í góðu samstarfi í yngri flokkum og þann 12.september fóru fram fyrstu samæfingar hjá 3.-6.flokk hjá báðum kynjum þetta haustið. Allar þessar æfingar fóru fram á Dalvíkurvelli því nú er kominn sá tími ársins að æfingaaðstæðurnar í Fjallabyggð eru ekki viðunandi.
Tindastóll og Dalvík/Reynir hafa nýlega bæði fengið gervigrasvöll sem aðalvöll og æfingavöll fyrir alla iðkendur félaganna.
Það leysir því ekki aðstöðuna sem KF hefur búið við að endurbæta grasvöllinn. Nýtt gervigras mun nýtast allt árið sé það upphitað og mun það efla knattspyrnustarfið í Fjallabyggð til muna og laða að nýja iðkendur og styrkja meistaraflokkinn til að ná enn betri árangri.
Ljósmyndir: Héðinsfjörður.is – Magnús Rúnar Magnússon