Landsmót UMFÍ á Sauðárkróki í júlí

Landsmótið er fjögurra daga íþróttaveisla á Sauðárkróki dagana 12. – 15. júlí 2018. Íþróttir og hreyfing verða í aðalhlutverki á daginn. Á kvöldin verður skemmtun og samvera í góðum félagssskap allsráðandi.  Allir 18 ára og eldri geta skráð sig, hvort sem þeir eru í íþrótta- og ungmennafélagi eða ekki. Að sjálfsögðu verður margt í boði fyrir mótsgesti yngri en 18 ára. Landsmótið er því frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Landsmótið er tilvalinn vettvangur fyrir vinahópa, starfsmannahópa, stórfjölskylduna eða endurfundi af ýmsu tagi. Á Landsmótinu er tilvalið að styrkja tengslin við vini og vandamenn í góðum félagsskap, hreyfa sig, njóta samverunnar og gleðjast saman.

Þátttakendur mótsins geta keppt í eða prófað fjölda íþróttgreina í bland við götu- og tónlistarveislu. Saman munu gestir Landsmótsins skapa töfrandi minningar. Það verður rífandi fjör og gleði alla daga mótsins.  Þeir sem skrá sig til leiks búa til sína eigin dagskrá.

Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á sama stað og á sama tíma. Mótið verður með svipuðu fyrirkomulagi og undanfarin ár. Helstu keppnisgreinar verða á sínum stað auk þess mun framboð á keppnisgreinum, afþreyingu og öðrum viðburðum vera margfalt meira en áður.

 

Landsmótið – eins og þú vilt hafa það!

Á Landsmótinu verða meira en 30 íþróttagreinar auk skemmtunar og fróðleiks. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hægt er að kynnast nýjum greinum, fá kennslu og taka fyrstu skrefin í nýrri hreyfingu. Þú setur saman þitt eigið Landsmót.

Til að einfalda hlutina við skráningu er keppnisgreinum og afþreyingu skipt upp eftir litum.

 • Allar keppnisgreinar eru merktar gular.
 • Viðburðir þar sem þátttakendum gefst tækifæri til að prófa – láta vaða eru merktir rauðir.
 • Viðburðir sem eru opnir öllum eru merktir grænir.
 • Alls konar viðburðir og afþreying í Skagafirði sem þátttakendur hljóta afslátt af eru merktir bláir.

 

Skráning

Allir 18 ára og eldri geta skráð sig til leiks. Þátttakendur fá armband sem veitir þeim óteljandi möguleika á mótinu. Armbandið veitir aðgang að allri keppni, láta vaða eða prófa eitthvað nýtt. Svo er líka hægt að hlusta á góða tónlist, taka þátt í leikjum og skemmtun. Allir taka þátt á sínum forsendum og búa til sitt eigið Landsmót.

Skráning hefst 1. apríl nk. Skráning fer fram í gegnum greiðslukerfið NORA.

 

Þátttökugjald

Fyrir einstaklinga 18 ára og eldri:

4.900kr. til og með 15. júní 2018

6.900kr eftir 15. júní.

Athygli er vakin á því að í sumar greinar er takmarkaður fjöldi þátttakenda og því um að gera að tryggja sér pláss sem fyrst.

Þátttakendur sjá sjálfir um gistingu en UMFÍ hvetur alla til þess að nýta sér Landsmótstilboð á tjaldsvæðinu.

 

Hvað fæ ég með armbandinu?

 • Aðgang að öllum keppnisgreinum
 • Færi á að prufa fjölda spennandi íþróttagreina
 • Kennslu í fjölda íþróttagreina
 • Afslátt á tjaldsvæðið
 • Afslátt á Pallaballið og fleiri viðburði
 • Afslátt af veitingum hjá völdum aðilum
 • Afslátt hjá fjölda samstarfsaðila