Landsmót hestamanna á Hólum næsta sumar

Landsmót hestamanna verður haldið dagana 27. júní – 3. júlí 2016 á Hólum í Hjaltadal. Þann 19. desember 2014 skrifuðu Landssamband hestamannafélaga, Gullhylur ehf., Sveitarfélagið Skagafjörður og Háskólinn á Hólum undir viljayfirlýsingu um að halda Landsmót á Hólum í Hjaltadal sumarið 2016. Þann 6. mars 2015 tók stjórn LH síðan ákvörðun um að mótið skyldi haldið á Hólum sumarið 2016.

Landsmót hestamanna var síðast haldið að Hólum árið 1966 og því viðeigandi að fagna því að slétt 50 ár séu liðin frá því með því að halda glæsilegt Landsmót á þessum sögufræga stað að nýju.

Á Hólum æðsta menntastofnun íslenska hestsins í heiminum og mun landsmót því efla skólann verulega og sú uppbygging sem verður vegna mótsins mun nýtast skólanum um ókomna tíð.

Í desember 2014 skrifuðu Landssamband hestamannafélaga, Hestamannafélagið Fákur og Reykjavíkurborg undir viljayfirlýsingu um að halda Landsmót hestamanna í Víðidal í Reykjavík sumarið 2018.

Á Hólum er góð aðstaða og húsakostur til mótshalds. Stærsta byggingin er Brúnastaðir en í henni eru 189 eins hests stíur og hluta þeirra hentar fyrir stóðhesta. Það er fyrst og fremst nýtt undir nemendahesta og hesta í eigu skólans, skólahestana. Í suðurenda Brúnastaða er 800 fermetra reiðhöll, Brúnastaðahöllin sem var vígð árið 2007. Í gamla hesthúsinu er pláss fyrir 20-30 hross. Áföst því hesthúsi er Skólahöllin, önnur 800 fermetra reiðhöll, sú fyrsta sem var reist á Hólum. Í tengibyggingu eru m.a. járningaaðstaða og lítil kennslustofa. Þriðja reiðhöllin, Þráarhöllin, er langstærst eða um 1545 fermetrar, en þar er áhorfendastúka. Aðalreiðvöllur skólans er fyrir framan Þráarhöllina.

Talsverðar framkvæmdir vegna Landsmótsins eru fyrirhugaðar, bæði á keppnis- og tjaldsvæði. Meðal annars verður gerður nýr kynbótavöllur, 4 áhorfendamanir, kerruplan, plan undir þjónustu, aðalvöllur lagfærður, reiðleiðir og upphitunarbrautir lagfærðar, ljósleiðari lagður inn á svæðið, rafmagn tengt inn á tjaldsvæði og margt fleira. Gert er ráð fyrir að öllum helstu og stærstu jarðvegsframkvæmdum verði lokið fyrir 1. ágúst 2015.

Landsmót hestamanna og ferðaskrifstofan Northwest Adventures hafa gert með sér samstarfssamning um þjónustu við væntanlega gesti Landsmóts á Hólum á næsta ári.  Í samningnum felst að NW Adventures tekur að sér að svara fyrirspurnum gesta og bóka gistingu á mótssvæðinu, ferðir til og frá mótssvæði og afþreyingarmöguleika í nágrenni þess.  NW Adventures hefur þegar hafið vinnu við að safna saman þeirri heimagistingu sem í boði verður í Skagafirði, auk þess mun fyrirtækið bjóða upp á tjöld og tjaldvagna sem gestir geta bókað og tjaldað verður á mótssvæðinu.

Nú fer hver að verða síðastur að næla sér í miða á Landsmót hestamanna á forsöluverði. Verðið hefur aldrei verið eins lágt og gildir það jafnt fyrir alla. Fyrri hluti forsölu gildir til áramóta en þann 1. janúar 2016 hækkar verðið.

static1.squarespace.com

Heimild: landsmot.squarespace.com/heim