Landsbankinn kaupir Sparisjóð Svarfdæla

Stjórn Sparisjóðs Svarfdæla og Landsbankinn hf. hafa náð samkomulagi um að Landsbankinn kaupi allar eignir og rekstur Sparisjóðsins og haldi áfram fjármálastarfsemi í Dalvíkurbyggð.

Í tilkynningu frá H. F. verðbréfum, sem sáu um söluferlið, kemur fram, að samkomulagið feli í sér að Landsbankinn taki yfir skuldbindingar vegna innlána og víkjandi lán, sem samtals nema um 3200 milljónum króna og greiði sparisjóðnum 165 milljónir króna. Landsbankinn taki sömuleiðis yfir rekstrartengdar skuldbindingar sparisjóðsins.

Bankasýsla ríkisins auglýsti 90% eignarhlut ríkisins í Sparisjóði Svarfdæla til sölu í september. Fram kemur í tilkynningunni að ýmsir hafi sýnt sparisjóðnum áhuga en bindandi tilboð hafi borist frá Landsbankanum. Í kjölfarið hófust viðræður Bankasýslunnar og Landsbankans sem leiddu til þess að Landsbankinn gerði tilboð í allar eignir og rekstur Sparisjóðs Svarfdæla og hafi stjórn sjóðsins samþykkt tilboðið.

Af hálfu stjórnar Sparisjóðs Svarfdæla er tilboð Landsbankans samþykkt með fyrirvara um samþykki stofnfjárhafafundar sem haldinn verður síðar í þessum mánuði. Um 150 stofnfjárhafar ráða 10% hlut í sjóðnum.

Kauptilboðið er auk þess háð fyrirvörum, m.a. um samþykki Fjármálaeftirlitsins,Eftirlitsstofnunar EFTA og Samkeppniseftirlitsins.

Sparisjóður Svarfdæla hefur verið rekinn á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu um nokkurt skeið.  Sparisjóðurinn rekur starfsemi á Dalvík og afgreiðslu í Hrísey. Starfsmenn sjóðsins eru níu talsins. Landsbankinn mun taka rekstur sparisjóðsins yfir þegar allir fyrirvarar við samkomulagið hafa verið uppfylltir.

Heimild: mbl.is