Kvikmyndin Hálfur Álfur um vitavörðinn Trausta í Sauðanesvita

Heimildamyndin HÁLFUR ÁLFUR eftir Jón Bjarka Magnússon fer í almennar sýningar í Bíó Paradís, frá og með fimmtudeginum 25. mars. Sýningum hér heima hefur ítrekað verið frestað vegna heimsfaraldursins en nú skal þess freistað að koma verkinu fyrir almennings sjónir.

Myndin var forsýnd á Skjaldborgarhátíðinni síðastliðið haust, þar sem hún hlaut dómnefndarverðlaunin „Ljóskastarann”, og hefur síðan þá ferðast um evrópskar kvikmyndahátíðir, til Rúmeníu, Noregs, Portúgal, og verið tilnefnd til verðlauna, m.a. í aðalkeppni kvikmyndahátíðar hinnar konunglegu bresku mannfræðistofnunar (RAI), sem og bjartasta vonin á Nordisk Panorama.

HÁLFUR ÁLFUR fjallar um vitavörðinn Trausta sem tengist sínum innri álfi á meðan hann undirbýr hundrað ára afmælið eða eigin jarðarför, hvort sem kemur á undan. Á sama tíma hörfar Hulda inn í heim horfinna ljóða með aðstoð stækkunarglersins síns. Þegar hann brestur í söng skipar hún honum að hætta þessum öskrum. Jón Bjarki fylgdi afa sínum og ömmu, þeim Trausta Breiðfjörð Magnússyni og Huldu Jónsdóttur, eftir síðustu æviárin, svo úr varð hans fyrsta heimildamynd í fullri lengd.

Dómnefnd Skjaldborgarhátíðarinnar, sem skipuð var þeim Grími Hákonarsyni leikstjóra, Veru Illugadóttur útvarpskonu og Uglu Hauksdóttur leikstjóra, lýstu myndinni með þessum orðum:

„Sterk og heildsteypt saga, einlæg og tilgerðarlaus frásögn; mynd sem hrífur mann með sér frá fyrstu mínútu og fær mann til að hlæja og gráta á víxl. Óborganlegar persónur með sterka tengingu við náttúruna og íslenskan menningararf. Myndin minnir okkur á að taka lífið ekki of alvarlega og hafa gaman, en jafnframt vekur hún okkur til umhugsunar um dauðann og það sem tekur við.”

Þá hafði Gunnar Theódór Eggertsson, gagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1, þetta að segja: „Myndin er dramatísk í eðli sínu, því hún fjallar að stórum hluta um dauðann, en reglulega fyndin og skemmtileg, rétt eins og aðalpersónan sem heldur henni uppi.”

HÁLFUR ÁLFUR er framleidd af þeim Jóni Bjarka og Hlín Ólafsdóttur fyrir SKAK bíófilm, í samstarfi við þau Andy Lawrence hjá AllRitesReversed og Veroniku Janatkovu hjá Pandistan, og með sölu og dreifingu erlendis fer Feelsales. Hlín sér auk þess um frumsamda tónlist í myndinni, en þeir Teitur Magnússon og Sindri Freyr Steinsson útsettu einnig sérstaklega tvö lög fyrir myndina. Þá sáu þeir Arnar Ingi Gunnarsson og Kiron Guidi um hljóðhönnun auk þess sem Daði Jónsson sá um litvinnslu.

Hægt er að kaupa miða á myndina á vef Bíó Paradísar.

Það má nálgast frekari upplýsingar um myndina á heimasíðunni www.halfelffilm.com, eða á Facebook-síðunni: https://www.facebook.com/skakbiofilm, auk þess sem skoða má kítlu hennar hér:

HALF ELF (2020)- Official Trailer from SKAK bíófilm on Vimeo.

Myndir og texti: Aðsent.