Kvennalið BF mætti Ými

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Ými í 1. deild kvenna í blaki í dag á Siglufirði. Fyrirfram var búist við mjög erfiðum leik fyrir BF, en Ýmir var ósigrað í fyrstu fjórum leikjum liðsins á Íslandsmótinu.

Gestirnir voru sterkari í byrjun fyrstu hrinu og komust í 2-6 en BF kom til baka og jafnaði í 8-8 og tóku þá gestirnir leikhlé eftir góðan kafla BF. Jafnræði var með liðunum eftir hléið og komu BF konur sterkar inn og komust yfir 14-12 og 15-13. Kom þá góður kafli gestanna sem komust í 15-18 en þá tóku BF konur leikhlé. Gestirnir voru sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 19-25.

Í annari hrinu var í upphafi jafnræði með liðunum en gestirnir komust þó í 1-3 og 3-5, en svo var jafnt í 6-6 og 8-8 og 10-10. Þá tóku gestirnir völdin og komust í 10-13 og tóku þá heimakonur leikhlé. Ýmir hélt áfram að sækja stig og komust í 10-17 og enn tóku BF konur leikhlé. BF náði nokkrum stigum til baka og var staðan 13-17 og tóku þá gestirnir leikhlé. Ýmir var talsvert sterkari í síðarihluta hrinunnar og unnu hana örugglega 17-25.

Í þriðju hrinu byrjuðu Ýmiskonur mjög vel og komust í 0-6 en þá tóku BF konur strax leikhlé til að stilla saman strengi. Næstu þrjú stig voru BF og minnkuðu muninn í 3-6 en kom þá sterkur kafli Ýmis og komust þær í 3-12  og 8-16. Það stefndi í sigur Ýmis í stöðunni 10-23 en heimakonur neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í 16-24, en Ýmir vann þó hrinuna 16-25 með töluverðum yfirburðum og leikinn 0-3.