Kvennalið BF mætti Álftanesi á Siglufirði

Blakvertíðin í Fjallabyggð hófst með tveimur leikjum í Benecta-deildum Íslandsmótsins í blaki í dag. Kvennalið BF hóf leik gegn Álftanesi-2 og strax á eftir hófst leikur BF og Hamars í karlaflokki. Um 50 áhorfendur voru mættir til að styðja við keppendur í þessum leik. Eins og karlaliðið þá hefur liðið fengið nýjan þjálfara frá Spáni.

Lið Álftaness þurfti eftirminnilega að gefa síðasta leikinn gegn BF síðasta vetur þar sem einn leikmaður meiddist á fæti og önnur fékk mígreniskast. Hvorugur leikmannana treysti sér til að halda áfram og liðið hafði engan til taks á varamannabekknum. Liðið var nú aftur komið á Siglufjörð og ætlaði ekki tómhent heim. Liðið var þó áfram með engan varamann í þessum leik.

BF stelpurnar byrjuðu leikinn af krafti og komust í 6-0 og á þeim kafla tóku gestirnir eitt leikhlé til að ná áttum. BF stelpurnar voru áfram mun sterkari í hrinunni og komust í 10-3 og 13-5. Gestirnir skoruðu þá þrjú stig í röð og minnkuðu muninn í 13-8, en BF komst svo í 16-8 og aftur tóku gestirnir leikhlé.  Spilið hjá BF gekk vel í þessari hrinu og náði Álftanes aldrei að komast í takt við leikinn. BF komst í 20-12 og 24-14 og unnu hrinuna örugglega 25-16.

Gestirnir komu mun sterkari til leiks í næstu hrinu sem byrjaði þó ágætlega fyrir BF sem komust í 3-1. Eftir það tóku gestirnir völdin og skoruðu 7 stig í röð og komust í 3-8 og tóku nú BF stelpur leikhlé. Álftanes voru áfram með 3-5 stiga forskot í hrinunni og gekk spil BF ekki vel og komu stig hjá þeim frekar handahófskend. Gestirnir leiddu 6-10, 8-13 og 10-13, en þá kom góður kafli hjá þeim og gerðu þær 5 stig í röð og komust í 10-18, og aftur tók BF leikhlé. Gestirnir unnu hrinuna með nokkrum yfirburðum 19-25 og jöfnuðu leikinn í 1-1.

Þriðja hrina var lík þeirri annarri, gestirnir voru með forystu og spilið hjá þeim gekk betur en hjá BF stelpum í þessum leik. BF náði aldrei að ógna forskoti gestanna og unnu þær þessa hrinu 18-25 og voru komnar í vænlega stöðu, 1-2.

Fjórða hrinan var einnig eign Álftaness, spilið hjá þeim virkaði einfalt og voru þær ákveðnari og beittari í sínum sóknum.  Álfanes vann hrinuna örugglega 16-25 og leikinn 1-3.

Lið BF þarf greinlega aðeins meiri tíma að slípa sig saman og koma eflaust ákveðnari í næsta leik.