Á morgun laugardaginn 1. desember verða ljósin á jólatrénu á Kirkjutorgi á Sauðárkróki tendruð kl. 15:30 við hátíðlega athöfn og að þessu sinni er það í höndum nemenda 2. bekkjar Árskóla. Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðarráðs flytur hátíðarávarp, Stubbarnir undir stjórn Rögnvaldar Valbergssonar taka lagið, Leikfélag Sauðárkróks heldur uppi fjörinu og jólasveinarnir koma í heimsókn. Milli kl. 14:00 og 15:00 er ungu kynslóðinni boðið að aka um í hestvagni meðan beðið er eftir jólasveinunum.
Dagurinn hefst með friðargöngu Árskóla kl. 8:30 um morguninn þegar nemendur og starfsfólk skólans ganga saman og mynda friðarkeðju og tendra ljós á krossinum á Nöfunum. Eru allir Skagfirðingar hvattir til að mæta og taka þátt í þessum hátíðlega viðburði. Að göngu lokinni verður opið hús í Árskóla í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands.
það verður líf og fjör í gamla bænum á Króknum og flest fyrirtæki verða með opið fram eftir degi. Maddömurnar bjóða í kjötsúpu, opið í Gúttó, Pop-up verslun í Gamla pósthúsinu, skátakakó í Landsbankanum og opið í Safnaðarheimilinu svo eitthvað sé nefnt.
Hið árlega jólahlaðborð Rótarýklúbbs Sauðárkróks verður í íþróttahúsinu á Sauðárkróki kl. 12:00-14:00 og um kvöldið verður samkoma í Miðgarði í tilefni 100 ára fullveldisafmælisins sem kallast Hver á sér fegra föðurland. Dagskráin er í tali og tónum og hefst hún kl. 20:00 og er í umsjá Kvennakórsins Sóldísar og Karlakórsins Heimis.
Á sunnudaginn verður margt í boði: jólamarkaður í Árgarði, opið torfhesthúsið á Lýtingsstöðum, jólaról hjá Rúnalist Gallerí á Stórhóli, börnum boðið að koma í Gúttó og mála, jólamyndin Grinch í Króksbíói, aðventuhátíð í í Miklabæjarkirkju og margt fleira.