Krubbur er tveggja daga hugmyndasmiðja þar sem unnið er að lausnum sem tengjast betri nýtingu auðlinda og lágmörkun úrgangs. Viðburðurinn verður haldinn á Húsavík dagana 8.-9. mars og er fyrir öll áhugasöm á aldrinum 16 ára og eldri. Vegleg verðlaun eru fyrir bestu hugmyndirnar og heildarverðmæti vinninga er um 1.000.000 kr.
Í Krubbi verður unnið í teymum þar sem þátttakendur deila þekkingu og reynslu og vinna saman að því að útfæra lausnir við áskorunum sem fyrirtæki á svæðinu kynna. Með þessum nýsköpunarviðburði er markmiðið
–> að efla skapandi hugsun,
–> frumkvöðlastarf á sama tíma og
–> unnið er að markmiðum hringrásarhagkerfisins.
Teymin fá ráðgjöf frá sérhæfðum leiðbeinendum sem aðstoða þau við að útfæra hugmyndirnar. Engin þörf er á sérþekkingu þátttakenda, heldur einungis skapandi og lausnamiðaðri hugsun. Tillögurnar verða að lokum kynntar fyrir dómnefnd sem velur fjögur sigurvegarateymi.
Á Húsavík hefur mikil uppbygging átt sér stað í nýsköpunargeiranum undanfarið. Hraðið miðstöð nýsköpunar opnaði árið 2022 en þar er aðstaða í boði fyrir frumkvöðla og öll þau sem vilja nýta sér vinnuaðstöðu í skapandi og vel tækjum búnu umhverfi. Á meðan á hugmyndasmiðjunni stendur verður hægt að nýta aðstöðu í stafrænni smiðju, fá sértilboð í gistingu og einnig verða fjölmargir skemmtilegir viðburðir í gangi s.s. miðnæturopnun í Sjóböðunum, Pubquiz á Húsavík Öl, leiksýning hjá Leikfélagi Húsavíkur o.fl.
Skráðu þig til leiks hér: https://www.hic.is/krubbur
og fylgstu með á facebook viðburði Krubss hugmyndahraðhlaups.
Krubbur er unninn í góðu samstarfi fjölda aðila, meðal annars SSNE, Hraðsins, Norðanáttar, Eims, KLAK, PCC, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum, Íslenska gámafélagsins, Ocean Missions og Norðurþings.
Viðburðurinn er meðal annars styrktur af Lóu nýsköpunarsjóði en Klak Icelandic Startups sér um framkvæmd viðburðarins.
Nánari upplýsingar og skráningarform er á www.hic.is/krubbur, þar má líka finna upplýsingar um tilboð á gistingu. Spennandi helgi á Húsavík framundan.
Á meðal nýtanlegra hliðarafurða í Norðurþingi sem safnast á hverju ári eru þessir hér sem sjá má á myndinni fyrir neðan. Hvernig getum við aukið líftíma auðlinda jarðar og komi í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur?