Króksamót í körfubolta á laugardaginn

Körfuknattleiksdeild Tindastóls stendur fyrir sínu fjórða Króksamóti í minnibolta, laugardaginn 11. janúar 2014. Þetta er körfuboltamót fyrir krakka í 1.-6. bekk og er dagsmót á þægilegum tíma.

Króksamótið var fyrst haldið á 2010 , en um 140 krakkar frá Akureyri, Skagaströnd, Hvammstanga og Sauðárkróki tóku þátt. Markmiðið með mótinu er að höfða til krakka á smærri stöðum á svæðinu frá Borgarnesi og austur á land.

Áherslan er lögð á skemmtun og fjör, en úrslitin eru algjört aukaatriði og engin stig talin. Þátttökugjaldið er aðeins kr. 1500 og innfalið er máltíð að mótinu loknu. Áætlað er að mótið standi frá kl. 10-16, en það fer eftir þátttöku og fjölda leikja.