Kristján L. Möller alþingismaður óttast tafir á Vaðlaheiðargöngum
Það eru mér mikil vonbrigði að ekki tókst að ljúka málinu fyrir jól,“ segir Kristján L. Möller alþingismaður og formaður atvinnuveganefndar Alþingis en enn hefur óháð úttekt fjármálaráðuneytisins á reiknilíkani vegna Vaðlaheiðaganga ekki litið dagsins ljós. Úttekin er unnin á vegum fjármálaráðuneytis.
Kristján segir að fyrirtækinu IFS-greiningu hafi verið falið að gera úttektina, „og hún er víst ekki búin enn,“ segir hann. Það að enn er verið að vinna við yfirferð á reikninlíkani hafði í för með sér að fjármálaráðherra gat ekki farið með málið fyrir fjármálanefnd. „Ég óttast að það verði ekki fyrr en með vorinu, í mars eða apríl sem hægt verði að hefjast handa. Það eru mikil vonbrigði að enn verði tafir á þessu þarfa verkefni,“ segir Kristján.
Hann segir að ýmis öfl í samfélaginu berjist með oddi og egg gegn gerð Vaðlaheiðaganga, andstaðan sé mikil og þeir sem eru á móti framkvæmdinni hafi fengið aðra „sakleysingja“ eins og hann orðar það, til liðs við sig. Einkennilegast þyki honum að fremst í flokki andstæðinga Vaðlaheiðaganga fari Félag íslenskra bifreiðaeigenda. „Það er skrýtið að félagið sé á móti þessu mikla umferðaröryggismáli,“ segir hann.
Opnun tilboða var 11. október 2011 að undangengnu forvali. Gerð jarðganga milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals, ásamt byggingu tilheyrandi forskála og vega. Um er að ræða 9,5 m breið, 7,2 km löng jarðgöng í bergi, styrkingu ganga, raf- og stjórnbúnað þeirra, um 320 m langa steinsteypta vegskála og um 4,0 km langa vegi.
Áætlaðar magntölur eru:
Gröftur jarðganga 500.000 m3
Sprautusteypa 25.000 m3
Steinsteypa 3.000 m3
Forskering 100.000 m3
Fylling 400.000 m3
Bjóðandi | Tilboð kr. | Hlutfall | Frávik þús.kr. |
Metrostave / Suðurverk hf. (Ísland – Joint Venture | 10.849.427.276 | 116,4 | 1.996.293 |
Ístak hf. (Ísland) | 9.901.752.795 | 106,2 | 1.048.618 |
Norðurverk ehf. (Ísland- Samstarfshópur) | 9.488.706.534 | 101,8 | 635.572 |
Áætlaður verktakakostnaður | 9.323.350.000 | 100,0 | 470.216 |
IAV hf. / Marti (Ísland – Joint Venture) | 8.853.134.474 | 95,0 | 0 |