ÍR-ingar halda Stórmót ÍR í frjálsíþróttum í 17. sinn um komandi helgi. Mótið fer fram í Laugardalshöllinni og hefur fest sig í sessi sem langstærsta opna innanhússmótið frjálsíþróttum hér á landi.
Keppt er í aldursflokkum frá 8 ára og yngri upp í karla og kvennaflokk og koma keppendur víðsvegar að af landinu auk um 70 Færeyinga og eins Norðmanns sem hefur skráð sig til keppni. Þátttakendur eru nú þegar 760 talsins, 20 fleiri en fyrir ári og eru skráningar um 2500 sem þýðir að hver keppandi tekur þátt í um 3 greinum. Þátttökufélögin eru 29, 6 fleiri en í fyrra. Fjölmennastir eru ÍR-ingar með 190 keppendur, FH-ingar 75, Breiðablik sendir 67 og UFA og Afturelding 50 og 47 keppendr koma frá Selfossi. 70 Færeyingar keppa á mótinu, sem er 20 fleiri en í fyrra en þetta er fimmta árið í röð sem þeir taka þátt í Stórmóti ÍR. Nokkrir krakkar úr Ungmennafélaginu Glóa á Siglufirði mæta á mótið eins og síðustu ár og hafa þau staðið sig vel og ávallt komið heim með einhver verðlaun.
Fjöldi áhorfenda mun fylgjast með mótinu og til að framkvæma svo stóran viðburð þarf um 130 starfsmenn – það verður því fjör í Höllinni um helgina.