Körfuboltaæfingar í boði á Siglufirði eftir 14 ára hlé

Eftir 14 ára hlé á körfuboltaæfingum hjá Ungmennafélaginu Glóa á Siglufirði er nú aftur hægt að æfa körfubolta. Nemendur 3. – 4. bekkjar í Grunnskóla Fjallabyggðar hafa nú þann möguleika að velja körfuboltaæfingar í Frístund og 18 hressir krakkar mættu á sína fyrstu æfingu í vikunni. Umf. Glói greinir frá þessu á síðu sinni.

Æfingar verða aðeins einu sinni í viku og eru hugsaðar sem kynning á íþróttinni og til að ná tökum á grunnatriðum hennar. Næsta vor stendur til að setja upp lítinn körfuboltavöll á grunnskólalóðinni á Siglufirði og ættu þessir krakkar þá að geta notið sín vel þar.

Fyrst um sinn verða aðeins æfingar fyrir þennan aldurshóp í 3.-4. bekk.

Umf. Glói varð til árið 1994, m.a. út frá miklum almennum áhuga á körfubolta á þeim tíma, og var körfubolti helsta íþróttin hjá félaginu fyrstu árin. Var félagið með meistaraflokk og yngri flokka á Íslandsmótum fyrstu árin. Um tíma voru um 100 siglfirsk börn við æfingar, en þá voru reyndar um 340 börn á grunnskólaaldri á Siglufirði, í dag eru þau um 120 og samtals um 200 í Fjallabyggð.