Frábær grein sem birtist fyrst á vefnum Lifðu Núna. Endurbirt hér með góðfúsu leyfi ritstjóra Lifðu Núna.

„Okkur fannst sem sátum í stjórn Félags eldri borgara á Siglufirði að það væri helst til lítið verið að gera fyrir þennan aldurshóp í Fjallabyggð, en þar eru bæði Siglufjörður og Ólafsfjörður, þar sem Félag eldri borgara er einnig starfandi. Við fórum að velta fyrir okkur hvað við gætum gert,“ segir Ingvar Guðmundsson, formaður FEB á Siglufirði. Það var svo í byrjun árs 2018, þegar líða fór að bæjarstjórnarkosningum, að fólk úr félögum eldri borgara í Fjallabyggð tók sig til og settist á rökstóla um hvað unnt væri að gera og hvort það myndi borga sig að efna til sérframboðs eldri borgara í bæjarfélaginu til að komast til áhrifa. „Við töldum að slíkt sérframboöð gæti náð inn einum manni eða tveimur, enda er hlutfall eldra fólks í Fjallabyggð hærra en almennt á landsvísu, eða á bilinu 25-30%. Þetta er líka sá aldurshópur sem mætir best á kjörstað,“ segir Ingvar.

Fréttin barst eins og eldur í sinu

Ingvar segið að fundur hafi verið haldinn í gamla bakaríinu á Siglufirði og þar hafi verið hafður með í ráðum maður sem hafði unnið mikið í kringum kosningar í gegnum tíðina, meðal annars verið kosningastjóri. „Við töldum þetta framkvæmanlegt þó fresturinn væri ekki langur. Áður en fundinum lauk, fór kosningastjórinn fram til að ná sér í kaffi. Þetta var síðdegis og bakaríið fullt af verktökum sem voru að fá sér eftirmiðdagskaffi. Þeir spurðu hvað væri að gerast í fundarherberginu. „Við eldri borgarar erum bara að ræða hvort við förum ekki í framboð í vor,“ svaraði hann og það var eins og við manninn mælt að fréttin barst eins og eldur í sinu um allan bæ og við fórum strax að fá símtöl frá fulltrúum flokkanna þar sem okkur voru boðin sæti á þeirra listum,“ rifjar Ingvar upp.

Hættu við sérframboð

„Eftir að hafa rætt málin sáum við tækifæri í því, svo framarlega sem við gætum haft áhrif. Það varð úr að taka sæti á listum tveggja framboða, hjá D-listanum og I-listanum sem er bæjarlistinn hér. Ég fór í sjötta sæti hjá D-listanum en félagi minn í 3. sæti hjá I-listanum. Við settumst báðir í meirhlutaráð, þar sem farið er yfir málefni sem er verið að ræða í bæjarráði og bæjarstjórn. Ég tók einnig sæti í félagsmálanefnd sem málefni eldri borgara í sveitarfélaginu heyra undir, en félagi minn í bygginga- og skipulagsnefnd. Hann hætti hins vegar afskiptum af bæjarmálunum, hann hafði kannski ekki þolinmæði í að reyna að ná eyrum stjórnkerfisins og fannst ekki mikið á hann hlustað. Ég er ennþá að reyna að fylgjast með og reyna að hafa áhrif og hyggst gera það áfram,“ segir hann.

Hvetja til þess að fleiri fylgi í fótspor þeirra

Svo kom öldungaráðið til skjalanna og þar á Ingvar nú sæti sem formaður Félags eldri borgara og annar maður í stjórn félagsins situr einnig í öldungaráðinu. Hann segir að unnið hafi verið að því að efla eldri borgara á svæðinu og fjölga fólki í félögunum. Öldungaráðið hafi reynst sá vettvangur sem best gengur að nota. Nú sé til dæmis verið að ræða búsetuúrræði eldra fólks sem sitji í stórum húsum og hefur ekki önnur úrræði. „Við erum að hvetja til þess að fleiri feti í fótspor okkar og erum að reyna að finna fólk sem hefur getu og vilja til að gefa kost á sér í pólitíkinni. Ein leiðin er að bjóða fram sérlista, eða komast það framarlega á listana hjá gömlu framboðunum að það sé hægt að hafa áhrif. Þessi rótgrónu framboð eru farin að sjá hag í því að hafa eldri borgara innan sinna raða, en sú var ekki raunin fyrir eins og einu kjörtímabili síðan,“ segir Ingvar.

Telur að árangur muni nást

„Þetta heppnaðist betur en ég þorði að vona, en það krefst bæði vinnu og fjármuna að fara í framboð. Á móti kemur að ef 2-3 eldri borgarar komast það framarlega á lista að þeir hafi áhrif í bæjarráði eða bæjarstjórn, er mikill akkur í því. Ég finn það alveg og það er sterkt ef öldungaráðin eru mönnuð sömu aðilum. Þá eru þeir frá upphafi betur inni í málunum. Sumir skipa öldungaráðin hinum og þessum, en við gerðum kröfu um að formaður Félags eldri borgara á hverjum tíma sæti í öldungaráðinu“, segir Ingvar. Hann er þeirrar skoðunar að eldri borgarar í byggðarlaginu hafi með þessu náð árangri. „Mér finnst það. Það er erfiðara að sniðganga okkur af því við erum í innsta hring. Hann segir það einnig létta lund eldra fólksins í bænum að verið sé að ræða þeirra mál, það hafi góð áhrif. Þá séu haldnir upplýsingafundir reglulega á vegum félagsins, bæjarstjóra og bæjarráðs þar sem helstu mál sem eru á döfinni séu rædd.

Texti og mynd: Lifðununa.is -Birt með leyfi.

Mynd:Héðinsfjörður.is