Knattspyrnufélag Akureyrar(KA) verður 85 ára 8. janúar og verður haldið upp á tímamótin laugardaginn 12. janúar, en mikið verður um að vera hjá félaginu á afmælisárinu. Aðgöngumiðasala í afmælishófið er hafin í KA-heimilinu og er fólk hvatt til þess að tryggja sér miða sem fyrst. Þá verður ráðist í gerð gervigrasvallar á KA-svæðinu, sem fullyrða má að verði bylting í aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkendur í KA.
Það voru tólf strákar sem stofnuðu Knattspyrnufélag Akureyrar 8. janúar 1928 á heimili hjónanna Margrétar og Axels Schiöth bakara, að Hafnarstræti 23; Alfred Lillendahl, Arngrímur Árnason, Eðvarð Sigurgeirsson, Einar Björnsson, Georg Pálsson, Gunnar H. Kristjánsson, Helgi Schiöth, Jón Sigurgeirsson, Jónas G. Jónsson, Karl L. Benediktsson, Kristján Kristjánsson og Tómas Steingrímsson.