Knattspyrnudeild Dalvíkur semur við aðalþjálfara

Stjórn Knattspyrnudeildar Dalvíkur hefur gengið frá samningum við tvo aðalþjálfara sem stýra munu liðinu saman næsta sumar í 3. deildinni. Þetta eru þeir Pétur Heiðar Kristjánsson og Jóhann Hreiðarsson. Samningurinn við þá er til eins árs. Frá þessu var fyrst greint á dalviksport.is.

Pétur var aðalþjálfari liðsins á síðasta tímabili og Jói honum til aðstoðar, en með ákveðnum áherslubreytingum munu þeir félagar halda samstarfinu áfram.

Áætla má að meistaraflokkur Dalvíkur/Reynis hefji æfingar í byrjun nóvember og liðið mun svo taka þátt í Kjarnafæðismótinu sem hefst í lok árs.

Heimild: dalviksport.is