Klassík í Bergi menningarhúsi

Laugardaginn 4. nóvember munu Ólafur Kjartan Sigurðarson og Anna Guðný Guðmundsdóttir koma fram á tónleikum í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík.  Ólafur Kjartan hefur ekki komið fram á einsöngstónleikum á Íslandi árum saman og það gleður hann alveg sérstaklega að fá tækifæri til að koma fram í Menningarhúsinu Bergi ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara.  Á efnisskrá tónleikanna verða aríur úr ýmsum óperum sem Ólafur Kjartan er hvað þekkastur fyrir, ljóðabálkar eftir Finzi og Ravel sem og íslensk og rússnesk sönglög.

Undanfarin 10 ár hefur Ólafur Kjartan verið búsettur í Þýskalandi og starfsvettvangur hans að mestu verið á meginlandi Evrópu og á Norðurlöndum. Af fjölmörgum verkefnum hans eru hlutverk í óperum Verdi, Puccini og Wagner hvað mest áberandi; Macbeth, Iago, Renato, Falstaff, Scarpia, Jack Rance, Telramund, Alberich, Klingsor, Hollendingurinn fljúgandi og síðast en ekki síst Rigoletto.  Hann hefur einnig hlotið lof fyrir túlkun sína á Barnaba, Bláskegg, Escamillo, Gérard, Jochanaan og Tonio. Ólafur Kjartan hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, m.a. Grímuverðlaunin fyrir túlkun sína á Rigoletto.

Ólafur Kjartan hefur einnig komið fram á fjölda tónleika víða um heim. Nýlega söng hann við vígslu nýrrar tónleikahallar í Lugano undir stjórn Vladimir Ashkenazy, í níundu sinfóníu Beethoven á tónleikaferð um Japan undir stjórn Toshiuki Kamioka og á nýliðnu sumri í Canberra, Melbourne og Sidney. Hann hefur einnig margoft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Meðal næstu verkefna Ólafs Kjartans er hlutverk Rigoletto við Finnsku þjóðaróperuna og hjá Minnesota Opera, Falstaff hjá Opera Colorado, Lohengrin í Prag svo fátt eitt sé nefnt.

Anna Guðný Guðmundsdóttir brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, en þangað kom hún úr Barnamúsíkskólanum.  Hún hélt síðan til náms við Guildhall School of Music í Lundúnum og lauk þaðan Post Graduate Diploma. Hún hefur síðan starfað á Íslandi við margvísleg störf píanistans, í kammertónlist, meðleik og sem einleikari.  Hún kemur reglulega fram á Listahátíð í Reykjavík og hefur m.a. leikið á tónlistarhátíðunum  Reykjavík Midsummer Music og Reykholtshátíð.  Hún er píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur, hefur ferðast víða með henni og leikið inn á geisladiska, en alls hefur hún leikið inn á um 30 diska með ýmsum listamönnum.  Anna Guðný hefur auk þess leikið með Karlakór Reykjavíkur á vortónleikum þeirra í yfir 20 ár og leikur með hljómsveitinni Salon Islandus.  Hún starfaði við tónlistardeild Listaháskóla Íslands frá stofnun hennar 2001 til ársins 2005 þegar hún var fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Í dag starfar hún einnig sem píanóleikari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Anna hefur þrisvar sinnum verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut þau árið 2008 sem flytjandi ársins.