Norðurlandsmótið eða Kjarnafæðismótið í knattspyrnu er hafið. Leikið er tveimur deildum A og B og fara leikir fram í Boganum á Akureyri. Opnunarleikur mótsins var á föstudagskvöld en þá léku Leiknir Fáskrúðsfirði og Völsungur frá Húsavík. Völsungur var sterkari aðilinn og sigruðu 0-2. Á laugardag lék KA við Magna og unnu KA-menn örugglega, 5-1, og voru 4-0 yfir í hálfleik.  Í B-deildinni var leikið í gær, en þá kepptu KA-3 og Dalvík/Reynir. KA-3 eru ungir strákar í 2. flokki KA, flestir fæddir frá árinu 1998-2001.

Dalvík gerði fyrsta mark leiksins á 42. mínútu, og var þar að verki Þröstur Jónasson, eftir aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig og náði hann að stýra boltanum inn eftir fyrirgjöf. KA jafnaði leikinn eftir ónákvæma sendingu úr vörn Dalvík og náðu hraðaupphlaupi sem endaði með skoti á nærstöng úr þröngri stöðu, staðan 1-1.

Sigurmarkið kom svo á 89. mínútu, og aftur skoraði Dalvík eftir fast leikatriði, nú eftir góða hornspyrnu, en markið gerði Ingvar Gylfason með skalla, en léleg dekking var í teignum. Dalvík var sterkari aðilinn í leiknum og höfðu meira úthald og unnu 1-2 sigur í þessum leik.