Ellefu aðildarfélög BSRB og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu nýjan kjarasamning á áttunda tímanum í morgun. Lauk þar með 14 klukkustunda samningatörn samninganefndar BSRB. Verkfallsaðgerðum 2500 félagsmanna aðildarfélaga BSRB í 30 sveitarfélögum hefur verið aflýst.
Mánaðarlaun hækka að lágmarki um 35.000 kr. og desemberuppbót á árinu 2023 verður 131.000 kr. Samkomulag náðist um sáttagreiðslu að upphæð 105.000 kr. eftir að ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu á fjórða tímanum í nótt. Auk þess var samið um hækkun á lægstu launum og viðbótargreiðslur fyrir tiltekin starfsheiti. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024 og nær til um 7000 félagsmanna BSRB.
Félögin sem gera kjarasamninginn eru:
- Félag opinbera starfsmanna á Austurlandi
- FOSS – stéttarfélag í almannaþjónustu
- Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
- Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu
- Starfsmannafélag Garðabæjar
- Starfsmannafélag Húsavíkur
- Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
- Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
- Starfsmannafélag Kópavogs
- Starfsmannafélag Suðurnesja
- Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar
Á næstu dögum munu aðildarfélög BSRB kynna samningana fyrir sínu félagsfólki. Eftir það verða samningarnir bornir undir atkvæði félagsmanna.