Kiwanisklúbbar á Norðurlandi „Óðinssvæði“ færðu Rannsóknastofu í lífeðlisfræði á Sjúkrahúsi Akureyrar heilalínuritstæki að gjöf á vordögum 2022. Verðmæti gjafarinnar eru 3.2 milljónir.
Nýja heilalínuritstækið mun nýtast skjólstæðingum lífeðlisfræðideildar, einkum börnum og bæta greiningu ýmissa höfuðáverka, flogaveiki og annarra heila- og taugasjúkdóma til muna. Tækið er mun fullkomnara en það sem fyrir var, það gefur möguleika á myndbandsupptökum auk þess sem sérfræðingar geta nú fylgst með heilaritum með fjarbúnaði í rauntíma sem bætir mjög úrlestur rannsókna.
Kiwanisklúbbar Óðinssvæðis sem standa að þessari gjöf hafa um 150 félaga og eru eftirfarandi:
Freyja – Sauðárkróki
Drangey – Sauðárkróki
Skjöldur – Siglufirði
Kaldbakur – Akureyri
Grímur – Grímsey
Skjálfandi – Húsavík
Herðubreið – Mývatnssveit
Askja – Vopnafirði
Óeigingjarnt sjálfboðastarf af þessu tagi gerir kleift að rannsaka, greina og meðhöndla sjúkdóma á norðurlandi á besta hugsanlega hátt.