Kirkjulistavika í Akureyrarkirkju

Fjórtánda Kirkjulistavika í Akureyrarkirkju hefst sunnudaginn 19. apríl og verður fyrsti dagur hátíðarinnar að miklu leyti helgaður minningu Davíðs Stefánssonar, skálds frá Fagraskógi. Hátíðin hefst með Davíðsmessu þar sem séra Karl Sigurbjörnsson biskup predikar. Tónlistin í messunni verður að mestu leyti við ljóð Davíðs. Ásamt Kór Akureyrarkirkju syngur Elvý G. Hreinsdóttir og Birkir Blær Óðinsson leikur á gítar.

Að messu lokinni verður opnuð myndlistarsýning í Safnaðarheimilinu og kapellu þar sem þau Joris Rademaker og Guðrún Pálína Guðmundsdóttir sýna verk sín. Klukkan hálfeitt hefjast svo Davíðstónleikar þar sem þau Kristjana Arngrímsdóttir söngkona og Kristján Eldjárn Hjartarson gítarleikari flytja lög við ljóð Davíðs Stefánssonar.

Sönghópurinn Hljómeyki flytur messu fyrir tvo kóra eftir Frank Martin ásamt fleiri verkum á tónleikum sem hefjast klukkan 17 í kirkjunni og um kvöldið teygir hátíðin sig til Dalvíkur þar sem verður æðruleysismessa í Dalvíkurkirkju.

Þrennir hádegistónleikar verða haldnir í kirkjunni á Kirkjulistaviku. Mánudaginn 20. apríl leikur Sigrún Magna Þórsteinsdóttir orgelleikari verk eftir Mendelssohn, Scheidt og Boëllmann. Þriðjudaginn 21. apríl verður leikið á kontrabassa og orgel þegar þeir Þórir Jóhannsson bassaleikari og Eyþór Ingi Jónsson orgelleikari flytja verk eftir Bach, Bruch og fleiri. Loks leikur hinn ungi og efnilegi píanóleikari, Alexander Smári Edelstein, á flygil kirkjunnar miðvikudaginn 22. apríl. Aðgangur að hádegistónleikunum er ókeypis.

Heimild: akureyri.is