KF/Tindastóll í 3.flokki léku gegn ÍA

3. flokkur KF/Tindastóls tók á móti íA frá Akranesi 8. júní í blíðskaparveðri á Siglufjarðarvelli. Fyrirfram var búist við hörkuleik en nýverið tapaði KF/Tindastóll  fyrir Skagamönnum á Skipaskaga. Raunin var að þetta var hörkuleikur og höfðu gestirnir sigur á endanum 2-3.

Heimamenn komust yfir strax á 8. mínutu eftir góða sókn en þar var að verki Óli Björn. Boltinn barst til Óla úti á vinstri kantinum, hann lék með boltann inní teig gestanna og kláraði færið mjög vel í fjær hornið. Staðan orðin 1-0 og heimamenn mun betri aðilinn. Staðan varð enn betri rétt fyrir hálfleik þegar Pétur Rúnar kom KF/Tindastól í 2-0 eftir flotta sókn. Staðan því orðin góð og fljótlega eftir þetta flautaði góður dómari leiksins til hálfleiks og staðan 2-0 fyrir heimamenn.

Seinni hálfleikur einkenndist svo af mikilli baráttu en til þess að gera langa sögu stutta gerðu gestirnir það sem til þurfti og ótrúlegt en satt gerðu þrjú mörk í seinni hálfleik. ÍA fór því með sigur af hólmi í æsispennandi leik, en heimamenn voru óheppnir að fá ekkert út úr leiknum þrátt fyrir góða spilamennsku.