Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.
Umfjöllun:
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti toppliði Njarðvík á Ólafsfjarðarvelli í 20. umferð Íslandsmótsins. Njarðvík er búið að tryggja sér sæti í Lengjudeildinni á næsta ári og hafa verið á mikilli sigurgöngu í síðustu leikjum liðsins. KF og Njarðvík hafa verið saman í 2. deildinni í þrjú ár og hafði Njarðvík unnið alla sex leikina á þeim tíma og unnu eftirminnilega 6-0 stórsigur í fyrri umferðinni þegar liðin mættust. KF hafði gert tvö jafntefli í síðustu tveimur leikjum og sigur í leiknum þar á undan og hafa verið batamerki á liðinu þrátt fyrir misjafnt gengi í mest allt sumar.
KF stillti upp sterku liði og var Grétar Áki með fyrirliðabandið í þessum leik. Heimamenn fengu drauma byrjun og komust yfir strax á 11. mínútu þegar Þorvaldur Daði Jónsson skoraði sitt 7. mark í deildinni í sumar.
Njarðvík jafnaði metin rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, eða á 43. mínútu og var staðan orðin 1-1. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Þorsteinn Már Þorvaldsson og kom KF aftur yfir í 2-1.
Markahæsti maður KF í sumar Julio Cesar Fernandes steig á punktinn á 61. mínútu þegar dómarinn dæmdi víti og skoraði og kom KF í góða stöðu 3-1.
Fyrrum leikmaður KF, Oumar Diouck skoraði strax í næstu sókn eða á 63. mínútu og minnkaði muninn fyrir Njarðvík í 3-2.
Báðir þjálfarar gerðu nú nokkrar skiptingar eftir þetta mark en KF menn voru ekki hættir að skorað. Julio Cesar Fernandes skoraði sitt annað mark í leiknum og kom KF í 4-2 á 84. mínútu.
Fleiri urðu mörkin ekki og vann KF glæsilegan sigur á toppliði Njarðvík og líklega besta frammistaðan í sumar hjá liðinu.
KF er í 8. sæti með 23 stig en Haukar töpuðu gegn Þrótti í dag og eru því núna aðeins eitt stig á milli KF og Hauka þegar tveir leikir eru eftir af mótinu. KF gæti hæst náð upp í 5. sæti með tveimur sigrum og hagstæðum úrslitum en þéttur pakki er frá 9. sæti til 5. sætis. Þá eru Magnamenn fallnir og líklegt er að Reynir Sandgerði fylgi þeim niður.
KF leikur næst við Reyni Sandgerði og svo Hött/Huginn á útivelli í lokaumferðinni.