KF vann Tindastól í 5 marka leik

Það var líf og fjör á Sauðárkróksvelli í dag þegar Tindastóll og Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mættust í Lengjubikarnum. Toppaðstæður voru á gervigrasinu á Sauðárkróki og hiti um 5 stig.  Þjálfari KF var ekki á leikskýrslu í dag en þrír leikmenn liðsins sá um leikstjórn en það voru þeir Hákon Leó, Halldór Mar og Sævar Gylfa.

Það var KF sem opnaði leikinn með fyrsta markinu á 36. mínútu en það var Oumar Diouck sem gerði markið. Stólarnir voru ekki lengi að jafna en aðeins þremur mínútum síðar var staðan orðin 1-1 þegar Arnar Ólafsson skoraði fyrir heimamenn.

Tindastóll gerði tvær skiptingar í leikhlé og eina aðra á 60. mínútu. Oumar Diouck var aftur réttur maður á réttum stað þegar hann skoraði sitt annað mark fyrir KF og kom þeim í 1-2 forystu á 68. mínútu. Tindastóll missti mann út af með rautt spjald á 70. mínútu og léku einum færri það sem eftir var leiks. Þeir náðu hins vegar að jafna aftur á 72. mínútu og var staðan orðin 2-2, en Arnar Ólafsson gerði sitt annað mark í leiknum.

Atli Snær Stefánsson gerði svo sigurmarkið fyrir KF á 83. mínútu. KF gerði í framhaldinu tvöfalda skiptingu en mörkin urðu ekki fleiri. Frábær sigur hjá KF á Stólunum en liðið er núna komið í efsta sætið riðlinum.