KF vann stórsigur í nágrannaslagnum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar vann sannkallaðan stórsigur í nágrannaslag gegn Dalvík-Reyni nú í kvöld (1. júní). Lokatölur urðu 4-1 fyrir KF. Leikurinn var fjörugur en tvö rauð spjöld litu dagsins ljós og ellefu gul spjöld.

KF komst yfir strax á 6. mínútu með marki frá Halldóri Loga Hilmarssyni. Páll Sindri Einarsson kom svo KF í 2-0 á 45. mínútu.  Þórður Birgisson jók svo muninn í 3-0 á 58. mínútu og staðan orðin vænleg fyrir heimamenn.

Bessi Víðisson minnkaði þó muninn í 3-1 á 62. mínútu úr vítaspyrnu fyrir Dalvík-Reyni en þremur mínútum síðar misstu þeir Hermann Albertsson útaf með rautt spjald og útlitið því svart fyrir Dalvíkinga.

Á 79. mínútu var Magnúsi Blöndal leikmanni KF vikið af leikvelli og því var jafnt í liðum það sem eftir lifði leiks. Trausti Örn Þórðarson innsiglaði svo stórsigur heimamanna í kvöld með fjórða marki KF á 90. mínútu. Lokatölur því 4-1 á Ólafsfjarðarvelli, en 350 áhorfendur voru að þessu sinni á vellinum.

Leikskýrslu frá KSÍ má sjá hér.