Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti KFF eða Fjarðabyggð á Ólafsfjarðarvelli í 9. umferð Íslandsmótsins. KF hafði ekki verið að ná í sigra í síðustu 5 leikjum í deild og bikar og hefur liðið aðeins hikstað undanfarið. Fjarðabyggð hefur ekki unnið leik í deildinni í sumar en náð í fjögur jafntefli. Fjarðabyggð hafði aðeins skorað 4 mörk í 8 leikjum í deildinni í sumar og voru í næstneðsta sæti deildarinnar fyrir leikinn. Liðin mættust sl. sumar á Eskjuvelli og vann KF þá 2-4.
KF fékk tvo lánsmenn fyrir þennan leik, Nikola Kristinn Stojanovic kemur að láni frá Þór en hann er 21 árs. Hann fékk treyju nr. 5 og kom beint inní byrjunarliðið. Áki Sölvason kemur að láni frá KA, hann er fæddur árið 1999 og byrjaði hann þennan leik á bekknum og fékk treyju númer 13.
Javon Sample var áfram í markinu í fjarveru Halldórs og Ljubomir Delic var ekki á leikskýrslu heldur.
KF byrjaði leikinn af krafti, en þurfti að gera breytingu strax á 14. mínútu þegar bakarinn harði Hákon Leó kom inná fyrir Aron Elí. KF skoraði fyrsta markið á 16. mínútu og var það Sachem sem kláraði færið vel. Aðeins tíu mínútum síðar skoraði KF aftur og var það Þorsteinn Már Þorvaldsson sem gerði markið, hans annað mark í sumar.
Staðan var 2-0 í hálfleik fyrir KF. Gestirnir voru ekki sáttir með sitt gengi og gerði þjálfari Fjarðabyggðar tvær skiptingar í hálfleik.
KF byrjaði aftur af krafti og skoruðu sitt þriðja mark á 52. mínútu þegar Oumar Diouck skoraði fram hjá markmanni Fjarðabyggðar. Staðan 3-0 fyrir heimamenn og fimmta mark Oumars í 11 leikjum í deild og bikar í sumar.
Áki Sölvason, nýr leikmaður KF kom inná á 65. mínútu og fékk 25. mínútur til að sýna sig.
Sachem skoraði sitt annað mark í leiknum á 68. mínútu og kom KF í 4-0, hans áttunda mark í 11 leikjum í deild og bikar í sumar.
Oumar og Sachem fengu skiptingu skömmu eftir mörkin sín og fengu hvíld, en hópurinn hjá KF er sterkur í sumar og var bekkurinn vel skipaður í þessum leik.
KF vann öruggan 4-0 sigur í þessum leik og eru núna í 5. sæti með 14 stig en deildin er mjög jöfn í ár og skiptir hver sigur miklu máli.