Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust í lokaleik Kjarnafæðismótsins, en nokkrir úrslitaleikir í þeirri keppni hafa farið fram síðustu daga. Bæði lið stilltu upp sterku byrjunarliði en leikurinn fór fram á heimvelli D/R á Dalvík. KF var með sex erlenda leikmenn í byrjunarliði en liðið hefur að jafnaði haft 3-4 erlenda leikmenn í sínum hópi. Dalvík var með tvo sterka erlenda leikmenn einnig, en Borja Laguna er einn af þeirra bestu mönnum.
Það voru heimamenn á Dalvík sem byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrstu tvö mörkin. Nágrannarnir úr Fjallabyggð, sóttu í sig veðrið og unnu upp erfiða stöðu og jöfnuðu leikinn og gerðu einnig úrslitamarkið. Það var hinn ungi Dagbjartur Búi Davíðsson sem stal senunni og setti tvö mörk fyrir KF, en hann er fæddur árið 2006 en er lánsmaður frá KA. Mikill baráttusigur hjá KF og frábær endurkoma. Jordan Damachoua gerði einnig eitt mark fyrir KF.
Næstu leikir liðanna eru á Íslandsmótinu í 2. deild karla. Bæði lið eiga erfiða útileiki næstkomandi laugardag, en Dalvík heimsækir Víking í Ólafsvík og KF heimsækir KFA á Austurlandi.
Það verður spennandi að fylgjast með KF í deildinni í sumar, með nýjan og óreyndan þjálfara í fararbroddi, en þjálfarar deildarinnar spá KF í fallsæti, sem eru ekkert nýjar fréttir, en liðið hefur verið um miðja deild undanfarin ár. Heimavöllurinn hefur reynst gríðarlega sterkur undanfarin ár og góður kjarni af uppöldum leikmönnum hefur verið hjartað í liðinu ásamt góðu skipulagi frá þjálfara.
Öllum leikjum KF verður fylgt eftir í sumar og verður hægt að vera með auglýsingar með hverri frétt. Styrktaraðilar að auglýsingum geta haft samband við Magnús, magnus(at)hedinsfjordur.is.