Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Selfoss léku í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. KF fékk fyrir leikinn Þórð Birgisson sóknarmann, og fór hann beint í byrjunarliðið.

Selfoss byrjaði leikinn betur og fengu þeir nokkur færi á fyrstu mínútum leiksins, en Juan Povedano Martinez skoraði fyrsta markið fyrir gestina á 26. mínútu. Heimamenn voru þó fljótir að jafna en á 28. mínútu jafnaði Gabríel Reynisson fyrir KF. Staðan var jöfn í hálfleik en á 56. mínútu fékk Gabríel Reynisson rautt spjald fyrir að stjaka við leikmanni Selfoss sem féll með tilþrifum. Annar leikmaður KF, Teitir Pétursson fékk svo rautt spjald á 58. mínútu en hann skall harkalega saman við leikmann Selfoss. KF tveimur  færri þarna, og 30 mínútur eftir, og staðan 1-1.

KF lagði ekki árar í bát heldur sóttu þeir að marki Selfoss og uppskáru vítaspyrnu á 76. mínútu er brotið var á Halldóri Loga. Þórður Birgisson skoraði örugglega úr spyrnunni og kom KF í 2-1. Selfoss reyndi að sækja til leiksloka en fengu ekki alvöru færi og KF vann dýrmætan sigur sínum sterka heimavelli.

Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.