KF vann öruggan sigur á Dalvík

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag í 2. deild karla í knattspyrnu. Dalvík hefur ekki byrjað mótið vel og hefur verið í fallbaráttu. KF hefur hinsvegar náð að safna stigum og eru á mjög góðum stað í töflunni miðað við að vera nýliðar í deildinni. Liðin mættust síðast í júlí og vann KF þar 2-4 sigur á Dalvíkurvelli. Liðin mættust líka í bikarnum í júní og KF vann einnig þann leik 1-2 og komu því fullir sjálfstrausts í þennan leik.

KF byrjaði leikinn vel og braut ísinn á 20. mínútu þegar Oumar Diouck skoraði gott mark og kom KF í 1-0. Oumar Diouck var ekki hættur og bætti við öðru marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks og kom KF í góða stöðu, 2-0 og þannig var staðan í hálfleik. Oumar Diouck hefur núna skorað 8 mörk í 12 leikjum í sumar og komið virkilega sterkur inn í liðið og klárar færin vel og er ávallt hættulegur í teignum.

KF hélt áfram að pressa og skoruðu þriðja markið á 50. mínútu og var þar að verki Grétari Áki með sitt fyrsta mark í sumar í 11 leikjum. Staðan orðin 3-0, en nóg var eftir af klukkunni.

Þjálfari Dalvíkur/Reynis var ekki sáttur með gengi sinna manna og gerði tvær skiptingar skömmu eftir þriðja markið.

Jón Óskar Sigurðsson leikmaður KF fékk síðan tvö gul spjöld á fimmtán mínútna kafla og fór því af velli á 74. mínútu með rautt spjald, og spiluðu KF einum manni færri til leiksloka.

Þjálfari KF gerði því nokkrar skiptingar á lokamínútum leiksins og lét óþreytta menn inná.

Dalvík skoraði svo í uppbótartíma, sárabótarmark, og lauk leiknum því 3-1 fyrir KF.

Glæsilegur sigur KF í þessum nágrannaslag og var sigurinn aldrei í hættu. KF er komið í 6. sæti með 22 stig eftir þennan sigur. Dalvík er enn í fallsæti eftir með 8 stig og er staðan ekki góð hjá þeim.