KF vann nauman sigur á Sindra – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Sindri frá Hornafirði mættust í gær á Sindravöllum í Hornafirði í 16. umferð Íslandsmótsins i 3. deild karla í knattspyrnu. KF liðið þurfti að ferðast langt til að spila þennan leik og gisti því liðið á Djúpavogi í eina nótt fyrir leikinn. Sindri var með 18 stig í 8. sæti fyrir þennan leik og KF var með 35 stig í 2. sæti.  Liðin mættust síðast þann 1. júní sl. á Ólafsfjarðarvelli og vann þá KF nauman sigur með marki í uppbótartíma. Liðin mættust einnig í deildinni árið 2018 og vann þá KF útileikinn 0-1 og Sindri vann á Ólafsfjarðarveli 0-3.

Þjálfari KF gerði fjórar breytingar frá síðasta leik, en inn í byrjunarliðið komu Grétar Áki, Tómas Veigar, Þorsteinn Már og Ljubomir Delic. Markahrókurinn Alexander Már var ekki í hóp og er sennilega að glíma við meiðsli.

Sindri var sterkari í fyrri hálfleik og náðu forskoti í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Þorlákur Pálmason skoraði og kom þeim yfir 1-0 skömmu fyrir hlé. KF strákarnir komu mun sterkari til leiks í síðari hálfleik og fengu sín færi. Vitor var sendur inn á völlinn á 64. mínútu og útaf fór Þorsteinn Már. Skömmu síðar kom Óliver inná fyrir Stefán Bjarka. Á 71. mínútu þá jafnar KF leikinn þegar Jordan Damachoua skorar sitt 5 mark í sumar, en hann hefur reynst drjúgur í markaskorun eftir að hann var færður á miðjuna. Rúmur hálftími var eftir og leikurinn í járnum en allt stefndi í jafntefli en þegar komið var fram á 97. mínútu í uppbótartíma, þá skoraði Ljubomir Delic þetta mikilvæga sigurmark og kom KF í 1-2 þegar leiktíminn var við það að renna út. KF landaði dýrmætum sigri og tæpara mátti ekki standa. Ljubomir var að skora sitt 5 mark í sumar í 18 leikjum í deild og bikar.

KF eltir enn Kórdrengi sem eru með 41 stig í 1. sæti. KF er í 2. sæti með 38 stig og KV er með 32 stig í 3. sæti og KF núna kom með 6 stiga forskot og í góðri stöðu í 2. sæti.

KF spilar næst mjög mikilvægan leik við KV á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 17. ágúst kl. 16:00. KF á nú sex leiki eftir, og verða þetta allt erfiðir leikir, þar á meðal við toppliðin.