Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Magni frá Grenivík mættust í gærkvöldi á Kjarnafæðismótinu í Boganum á Akureyri. Þessi tvö lið gjörþekkja hvort annað og mætast yfirleitt í lágmark fjórum leikjum á hverju ári. Liðin mættust síðast í deildinni síðasta sumar og vann KF báða leikina. Einnig mættust liðin í deildarbikar og bikarkeppninni síðasta vor og vann KF einn leik og Magni einn.

Hjá liðunum eru núna nokkrir leikmenn á reynslu og komu þeir við sögu í þessum leik ásamt ungum og efnilegum uppöldum leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki, en leika jafntframt með yngri flokkum liðanna.

Hjá KF var Javon Sample kominn aftur í markið, en okkur ný andlit voru á bekknum sem óvíst er hvort samið verði við á þessum tímapunkti en þeir auka breiddina í þessum leikjum fyrir tímabilið. Nýir í hóp hjá KF í þessum leik voru: Sigurður Þórsson frá Hömrum, en lék yngri flokka upp hjá KA. Breki Blöndal Egilsson frá Stjörnunni, fæddur 2005. Guðbjörn Birgisson frá Hvítum Riddara, fæddur 1999. Rúnar Egilsson frá Þór, fæddur 2003. Á bekknum var Kristófer Andri Ólafsson, fyrrum leikmaður KF, en er skráður í Samherja núna. Helgi Már Þorvaldsson frá Hömrunum, fæddur 2006, en lék upp yngri flokka með KA.

Nokkuð ný blanda af strákum í þessum leik og gott tækifæri fyrir þjálfarann að meta getu og styrk hvers og eins og gefa yngri leikmönnum tækifæri.

Hvorugt liðið náði að skora í fyrri hálfleik og var staðan 0-0 þegar dómarinn flautaði til hlés. Bæði lið gerðu tvær breytingar í hálfleik en hjá KF kom Kristófer Andri og Hákon Leó inná fyrir Rúnar Frey og Jón Frímann. Grétar Áki kom svo inná um miðjan hálfleik fyrir Marinó Snæ.

Allt virtist stefna í jafntefli í þessum leik en þegar um 10 mínútur voru eftir kom Jakob Auðun inná fyrir Sigurð Þórisson. Skömmu síðar fékk KF færi og kom fyrsta markið uppúr því, það var Guðbjörn Birgisson sem það skoraði en hann er á reynslu hjá liðinu um þessar mundir. Staðan 0-1 og um 5 mínútur eftir. KF náði einni skiptingu í uppbótartíma þegar Alex Helgi Óskarsson kom inná fyrir Atla Stefánsson.

Lokatölur 0-1 fyrir KF sem sótti fyrsta sigurinn í riðlinum og eru nú með þrjú stig eftir tvo leiki. Fyrsti sigur í hús hjá nýjum þjálfara KF. Magni var að leika sinn fyrsta leik í riðlinum og eru án stiga eftir þennan leik.

KF leikur næst við KA-2, 20. janúar og KFA 28. janúar.

Mynd með frétt er frá KDN.is.