KF vann Leikni í Lengjubikar

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Leiknir Fáskrúðsfirði léku í Lengjubikar karla í B-deild, seint á föstudagskvöld. Leiknir voru ósigraðir í síðustu tveimur leikjum en KF hafði unnið einn leik og tapað einum. Leikmenn KF höfðu gott sjálfstraust eftir góðan á Einherja í síðasta leik, en þar skoruðu þeir þrjú mörk og héldu markinu hreinu.  Í byrjunarliði KF voru ungir og nýir leikmenn í bland við reynslumeiri. Á bekknum var varamarkamaðurinn  Patrick Gabriel Bors, sem er aðeins 15 ára og hefur leikið með 4. flokki KF síðustu ár, og er nú orðinn þriðji markmaður liðsins vegna meiðsla hjá aðalmarkmanni liðsins. Aksentije Milisic var fyrirliði KF í þessum leik í fjarveru Halldórs Ingvars, sem hefur verið fyrirliði liðsins síðustu árin.

KF tók forystu í leiknum á 25. mínútu með marki frá Marinó Snæ, en hann er lánsmaður hjá KF í sumar. Hans annað mark í tveimur leikjum í Lengjubikar. Staðan var 1-0 fyrir KF í hálfleik, en í byrjun síðari hálfleiks þá jafnar Leiknir metin, staðan 1-1 eftir 47. mínútur. KF kemst svo aftur yfir á 57. mínútu með marki frá Andra Frey, staðan orðin 2-1, og urðu það lokatölur leiksins. Andri hefur leikið 86 deildar- og bikarleiki fyrir KF og skorað 1 mark.

KF er núna með sex stig eftir 3 leiki og leikur næst við Fjarðarbyggð/Huginn, sunnudaginn 25. mars.