Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Hetti/Huginn frá Austurlandi í dag á Ólafsfjarðarvelli í 3. deild karla í knattspyrnu.  KF þurfti á sigri að halda til að halda í við hin toppliðin, en Kórdrengir og KV eru liðin  sem KF er að eltast við núna. Höttur/Huginn er á hinum enda deildarinnar, og var liðið búið að gera þrjú jafntefli og vinna einn leik og var með 6 stig fyrir þennan leik. Þjálfari KF gerði tvær breytingar á liðinu frá síðasta leik sem tapaðist gegn KV, en Halldór Logi og Valur Reykjalín voru komnir í byrjunarliðið, en Ljubomir og Vitor misstu sitt sæti í þessum leik og byrjuðu á varamannabekknum.

KF hafði töluverða yfirburði í fyrri hálfleik og fengu þeir fín færi.  Undir lok fyrri hálfleiks opnaðist svo vörn gestanna og KF skoraði tvö mörk með stuttu millibili. Varnarmaðurinn öflugi Jordan Damachoua skoraði sitt annað mark í sumar þegar hann kom KF í 1-0 á 41. mínútu. Markið kom eftir hornspyrnu Hákons og skallaði Jordan boltanum inn í mark gestanna.  Aðeins þrem mínútum síðar var mikil barátta í vítateig gestanna og barst boltinn út á Halldór Loga sem kláraði færið með góðu skoti, og kom KF í 2-0.

Gestirnir byrjuðu svo af krafti í síðari hálfleik, en án þess þó að ná að nýta tækifærin. Höttur/Huginn gerði svo tvær tvöfaldar skiptingar í kringum miðjan síðari hálfleik, til að reyna komast betur inn í leikinn.

KF gerði eina skiptingu í hálfleik, en Vitor kom inná fyrir Andra Snæ. Á 78. mínútu gerði þjálfari KF tvöfalda skiptingu til að fá meiri vinnslu í sóknarleikinn, en Sævar Þór og Ljubomir komu inná, og átti það eftir að skila sér strax. Þegar tæpar 10 mínútur voru eftir af síðari hálfleik skoraði KF aftur og barst þá sending frá Ljubomir til Grétars Áka sem átti fast skot sem endaði í varnarmanni gestanna og fór þaðan inn. Alexander Már var þó alveg í færinu og telja sumir að hann eigi markið, en dómarinn skráði markið sem sjálfsmark.  Nokkrum mínútum fyrir leikslok misstu Höttur/Huginn leikmann af velli og léku þeir einum færri í nokkrar mínútur. KF náði svo einni lokaskiptingu áður en leikurinn kláraðist en Þorsteinn Már kom inná fyrir Grétar Áka á 86. mínútu. Lokatölur 3-0 fyrir KF og er liðið áfram í 3. sæti deildarinnar eftir sjö umferðir. Liðið er nú aðeins einu stigi frá Kórdrengjum og tveimur stigum frá toppliði KV.

Heilt yfir góður leikur hjá KF og þrjú góð mörk fyrir áhorfendur í dag.

KF leikur næst við Kórdrengi á Framvellinum í Reykjavík, laugardaginn 23. júní kl. 15:00.