KF vann góðan sigur á Einherja

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Einherja í Lengjubikarnum í gær. Liðin höfðu bæði leikið einn leik og voru bæði án stiga fyrir þennan leik. Í byrjunarliði KF voru 7 nýir leikmenn sem komu til félagsins í febrúar, mikið til ungir leikmenn og nokkrir á lánssamningi. Athygli vakti að Grétar Áki var fyrirliði KF í þessum leik.

KF þurfti að gera tvær skiptingar í upphafi fyrri hálfleiks, en Halldór Ingvar markmaður fékk skiptingu á 9. mínútu, líklega vegna meiðsla og Andri Freyr fékk skiptingu á 22. mínútu. Staðan í leikhlé var 0-0, en strax í upphafi síðari hálfleiks þá skorar KF fyrsta mark leiksins og var þar að verki Kristófer Andri, staðan 1-0. Aðeins sex mínútum síðar, eða á 52. mínútu kemst KF í 2-0 með marki frá Þorsteini Má, sem er nýr leikmaður KF á 17. ári. Þorsteini er svo skipt útáf á 55. mínútu fyrir annan ungan leikmann, Sævar Þór.

Þegar um 8 mínútur voru eftir að leiknum kemst KF í 3-0 með marki frá Marinó Snæ, sem er einnig nýr leikmaður KF á 19. ári. Lokatölur leiksins urðu 3-0 fyrir KF og eru þeir komnir með 3 stig B-deild Lengjubikarsins.

KF leikur næst við Leikni F, 18. mars í Boganum á Akureyri.