Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék við Dalvík/Reyni í Kjarnafæðismótinu í dag en leikið var á Dalvíkurvelli.

Bæði lið tefldu fram ungum leikmönnum og mjög ungum varamönnum í dag. Flestir erlendir leikmenn KF voru ekki með í dag en Ljubomir Delic var hins vegar klár í slaginn þar sem hann er nú fluttur til Íslands.  Hákon Leó Hilmarsson var fyrirliði KF í þessum leik og Javon Sample var í markinu, en hann er nýr aðalmarkmaður liðsins eftir að Hallór setti skóna á hilluna eftir Íslandsmótið í sumar.

Það var KF sem byrjaði betur og skoruðu strax á 8. mínútu og var það Marinó Snær Birgisson sem átti markið.  Staðan var 0-1 í hálfleik fyrir KF. Dalvík gerði 4 skiptingar í hálfleik og fengu margir ungir strákar tækifæri í leiknum.

KF skoraði aftur á 57. mínútu og aftur var það Marinó Snær með markið og KF komið í þægilega stöðu, 0-2. Helgi Már kom í markið fyrir Javon á 73. mínútu en þrír ungir leikmenn KF komu svo inná á allra síðustu mínútum leiksins.

Lokatölur 0-2 fyrir KF.