Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Magni frá Grenivík mættust í dag í 2. umferð Mjólkurbikarsins. Leikurinn fór fram á KA-vellinum, og var búist við erfiðum leik fyrir KF í dag en Magni leikur í Inkassódeildinni og KF í 3. deildinni. Liðin mættust síðast fyrir 2 árum en liðin léku þá bæði í 2. deildinni og mættust í 1. umferð bikarsins það vorið. Þá endaði leikurinn 2-2 en KF vann í vítaspyrnukeppni og mætti FH og tapaði þar stórt í 2. umferð bikarsins.
Fyrir þennan leik þá fóru tveir lánsmenn KF aftur til Magna, en þeir höfðu verið í um 2 mánuði á láni hjá KF og höfðu staðið sig ágætlega í þeim leikjum sem þeir fengu. Þetta voru þeir Marinó Snær Birgisson og Oddgeir Logi Gíslason. Þá fékk Ljubomir Delic leikheimild skömmu fyrir leik með KF, en hann spilaði síðasta sumar með liðinu og lék 17 leiki og gerði 6 mörk. Slobodan Milisic þjálfari KF var í banni í þessum leik, en hann fékk rautt spjalld í síðasta bikarleik fyrir að ýta við leikmanni Nökkva.
Magni byrjaði leikinn betur og komust yfir strax á 7. mínútu. Á 30. mínútu voru þeir svo komnir í 2-0 og var það einnig staðan í hálfleik. Á 65. mínútu gerir Magni tvöfalda skiptingu, og skömmu síðar skorar KF sjálfsmark sem er skráð á Aksentije Milisic. Á 73. mínútu gerir KF þrefalda skiptingu til að reyna hressa upp á leikinn, en á 76. mínútu skora Magnamenn sitt 4 mark, staðan 4-0. Á 82. mínútu fær Tómas Veigar leikmaður KF sitt annað gult spjald og léku KF því einum færri það sem eftir lifði leiks. Í blá lokin þá skora Magnamenn sitt fimmta mark, og unnu leikinn 5-0 og eru komnir í 3. umferð bikarsins.