Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Magna frá Grenivík á Ólafsfjarðarvelli í dag í 2. umferð Mjólkurbikarsins. Búist var við erfiðum leik en Magni leikur í næstefstu deildu en KF leikur í 2. deildinni.

Fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en á 48. mínútu og voru það gestirnir sem gerðu það og komust í 0-1. KF gerði tvöfalda skiptingu á 70. mínútu til að reyna jafna leikinn, en Óliver og Ingi Freyr komu inn á fyrir Bjarka og Marinó Snæ. KF jafnaði loks leikinn á 81. mínútu þegar Hrannar Snær skoraði og var staðan orðin 1-1 þegar skammt var eftir. KF gerði aðra skiptingu á 82. mínútu þegar Halldór Mar og Jakob Auðun komu inn á fyrir Sævar Þór og Kristófer Andra. Allt var lagt í sölurnar að knýja fram sigur, en leikurinn fór í framlengingu.

KF skoraði svo gott mark á 117. mínútu þegar Halldór Mar setti boltan í netið eftir frákast úr stangaskoti. Varamaðurinn Ingi Freyr hjá KF fékk svo tvö gulspjöld á lokamínútum leiksins og þar með rautt, og Magni fékk vítaspyrnu á 120. mínútu leiksins. Gríðarleg dramatík og svekkjandi niðurstaða, en Magni jafnaði úr spyrnunni í 2-2 og fór leikurinn í vítaspyrnukeppni.

Magni nýtti kláraði svo leikinn í vítaspyrnukeppni eftir þennan maraþonleik og fóru þeir því áfram í næstu umferð bikarsins og mæta þar HK.

Góð barátta hjá KF en svekkjandi úrslit í leik sem gat endað á hvorn mátann.