Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Knattspyrnufélagi Vesturbæjar á Ólafsfjarðarvelli í gær í 8. umferð 3. deildar karla. Búist var við erfiðum leik enda hefur KV byrjað mótið ágætlega og höfðu fimm sigra og eitt jafntefli eftir sjö leiki, á meðan KF var með tvo sigra og fimm töp. KF spilaði fram nokkuð hefðbundnu liði nema að Aksentije Milisic byrjaði leikinn á bekknum, sem er mjög óvanalegt. KF var meira með boltann í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta þau færi sem komu, og var því 0-0 í hálfleik. KF skorar svo fyrsta mark leiksins á 70. mínútu með marki frá Birni Andra Ingólfssyni, en hann hefur nú leikið 10 leiki fyrir KF og skorað eitt mark. Nokkrum mínútum síðar gerir þjálfari KV tvöfalda skiptingu til að fá ferska menn inn á völlinn og freista þess að jafna leikinn. KV fékk nokkur færi í seinni hálfleik og átti meðal annars tvo stangarskot, en inn vildi boltinn ekki. Undir lok leiksins gerir þjálfari KF tvær skiptingar til að fá inn óþreytta menn og reyna halda í úrslitin. Aksentije Milisic kom inn á undir lok leiksins, og náði hann að skora mark fyrir KF og staðan orðin 2-0 þegar mjög lítið var eftir af leiknum. KF hélt út og unnu góðan 2-0 sigur á sterku liði KV og lyftu sér upp í 7. sæti deildarinnar. Kærkominn sigur og frábært að halda markinu hreinu í þessum leik. Næsti leikur er gegn Dalvík/Reyni á Dalvíkurvelli, 5. júlí.