KF tók á móti Magna í mikilvægum leik – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty

Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti liði Magna frá Grenivík í 17. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á Ólafsfjarðarvelli. Fyrri leikur liðanna í sumar var bráðfjörugur og endaði með 3-3 jafntefli á Grenivík. Þá hafa liðin mæst í deildarbikar og Mjólkurbikar undanfarin ár í hörku leikjum.

KF gerði nokkrar breytingar frá síðasta leik en liðið tapaði gegn Þrótti í Vogum á meðan Magni vann Hauka örugglega í síðustu umferð. KF var í 5. sæti deildarinnar með 25 stig en Magni í 6. sæti með 24 stig og því mikið í húfi fyrir bæði lið að sækja þrjú stig. Hákon Leó vinstri bakvörður KF var ekki í hóp en hann var í leikbanni eftir að hafa fengið fjögur gul spjöld í sumar.

Nikola Kristinn leikmaður KF stimplaði sig inn strax á 5. mínútu og nældi sér í gult spjald, sem átti eftir að koma honum í vandræði síðar í leiknum. Heimamenn þurftu svo að gera skiptingu þegar fyrirliði KF meiddist eftir 16 mínútur, en inná kom Vitor Thomas. Vitor var aðeins inná í tæpar 25 mínútur, en þá meiddist hann einnig og inná kom Alexander Örn.

Eftir góða baráttu þá skoraði KF fyrsta mark leiksins á 42. mínútu, en það var Ljuba Delic sem markið gerði. Hans þriðja mark í sumar og 23 mark fyrir KF. Staðan var 1-0 í hálfleik þegar dómarinn flautaði.

KF skoraði svo annað mark sitt á 63. mínútu þegar Sævar Gylfason kom boltanum yfir línuna frægu. Staðan 2-0 og tæpur hálftími eftir. Sævar var að skora sitt fyrsta mark í deild og bikar í sumar í 16 leikjum, en þetta var hans 6 mark fyrir félagið í deildar- og bikarleikjum.

KF missti svo Nikola Kristinn af velli á 66. mínútu og léku einum færri til leiksloka. Þjálfari KF brást strax við og gerði skiptingu þegar Sachem fór útaf og Marinó Birgisosn kom inná.  KF bakkaði eftir þetta og lokaði svæðunum vel en Magni reyndi hvað þeir gátu að koma inn marki. Í uppbótartíma minnkaði Magni muninn þegar Tómas Arnarson skoraði sárabótarmark fyrir gestina. KF hélt út og vann góðan sigur 2-1 í þessum erfiða leik.