KF tók bronsið í úrslitaleik á móti Magna

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Magna frá Grenivík í úrslitum Kjarnafæðismótsins í leik um 3. sætið.  KF gekk vel í riðlinum í vetur og liðið stillti upp sterku liði í þessum leik. Liðin mættust líka í vetur í Lengjubikarnum þar sem KF vann örugglega 4-0.

KF strákarnir voru ekki mættir í þennan leik til að fara tómhentir heim. Þjálfarinn var að vanda með gott skipulag og strákarnir tilbúnir í baráttuna. KF hefur góðan hóp og er barist um næstum hverja stöðu í byrjunarliðinu.

Leikurinn var rétt nýbyrjaður þegar fyrsta markið kom, en Þorsteinn Már Þorvaldsson kom KF í 1-0 á 4. mínútu. Það var rúmum 10 mínútum síðar sem KF komst 2-0 þegar Oumar Diouck gerði gott mark. Andri Morina nýr leikmaður KF skoraði svo þriðja markið á 24. mínútu, og staðan orðin vænleg.

Þjálfari Magna sá ekki annað í stöðunni en að gera þrjár skiptingar í fyrri hálfleik til að reyna laga leik sinna manna. Staðan var engu að síður 3-0 í hálfleik. Fjórða markið kom svo á 62. mínútu þegar Björn Þórðarson gerði sjálfsmark, og staðan orðin 4-0 fyrir KF, þvílík veisla!

Eftir fjórða markið gat KF leyft sér að gera fjórar skiptingar þar sem yngri leikmenn fengu tækifæri.

Andri Morina innsiglaði svo stórsigur KF á 89. mínútu með sínu öðru marki í leiknum. Lokatölur urðu 5-0 fyrir KF, sannarlega stórsigur og liðið fékk bronsverðlaun á Kjarnafæðismótinu í ár.