KF tapaði stórt í Lengjubikar

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Völsungur frá Húsavík léku í B-deild Lengjubikars karla í dag. Leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri kl. 16:00 í dag. KF leikur í 3. deild á Íslandsmótinu og Völsungur í 2. deild.

Í liði KF voru nokkrir af nýjum leikmönnum sem fengum tækifæri í dag, þar á meðal Anton Örn Pálsson sem er nýjasti liðsmaður KF, hann kemur úr KA og hefur leikið með 2 .flokki síðustu ár. Einnig var á leikskýrslu KF Þorsteinn Már Þorvaldsson, fæddur árið 2001, og fékk hann einnig leikheimild með liðinu í gær, en hann kemur einnig frá KA og hefur leikið með 2. flokki liðsins.

Völsungur byrjaði leikinn betur skoruðu fyrsta mark leiksins á 11. mínútu. Skömmu fyrir leikhlé komust þeir svo í 2-0 og var staðan þannig í hálfleik. KF gerir þrefalda skiptingu strax eftir hálfleik til að reyna hressa upp á sinn leik, en allt kom fyrir ekki. Völsungur gerði svo tvö mörk með mínútu millibili, á 58. mín. og 59. mín. Staðan orðin 4-0 og 30 mínútur eftir. Á 68. mínútu kemst svo Völsungur í 5-0. Tveimur mínútum síðar fær Halldór Ingvar markmaður KF skiptingu fyrir Ásgeir Frímannsson, en allir varamenn KF fengu tækifæri í dag í þessum leik.

Lokatölur 5-0 fyrir spræka Húsvíkinga. Næsti leikur KF i Lengjubikarnum verður gegn Einherja, laugardaginn 3. mars.