KF tapaði óvænt fyrir Völsungi

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Völsungi frá Húsavík á Akureyri í dag. Leikurinn átti að vera á Ólafsfjarðarvelli en var færður í Íþróttahúsið Bogann á Akureyri með skömmum fyrirvara.

Völsungur er í harðri fallbaráttu og sárvantaði sigur í þessum leik á meðan KF er að reyna nálgast 5. sæti deildarinnar. KF vann fyrri leik liðanna í sumar 2-3 á Húsavík.

Það voru strákarnir í KF sem byrjuðu leikinn ágætlega og fengu drauma byrjun þegar Oumar Diouck skoraði sitt 10 mark í sumar í 17 leikjum og kom KF í forystu, 1-0.

Í síðari hálfleik fóru gulu og rauðu spjöldin að sýna sig og dómarinn hafði í nógu að snúast. Á 65. mínútu fá Völsungar víti og úr því skoraði Sæþór Olgeirsson, og jafnaði leikinn. Þjálfari KF brást strax við og gerði tvöfalda skiptingu og setti Bjarka Baldursson og Sævar Þór Fylkisson inná en útaf fóru Óliver Jóhanns og Miloudi. Þorsteinn Már Þorvaldsson kom inná á 76. mínútu fyrir Jón Óskar og KF gerðu hvað þeir gátu til að skora. Á 82. mínútu fékk Halldór Mar hjá KF rautt spjald og Ljubomir fékk gult spjald. Dómarinn hafði dæmt annað víti ! Sæþór Olgeirsson steig aftur á punktinn og skoraði örugglega, staðan orðin 1-2 og kannski 10 mínútur eftir með uppbótartíma. Á 86. mínútu fékk Ásgeir Kristjánsson hjá Völsungi sitt annað gula spjald, og þar með rautt, og aftur var jafnt í liðum, en tíminn var að fjara út fyrir KF.

Þorsteinn Tryggvason aðstoðarþjálfari KF fékk svo rautt spjald í uppbótartíma, líklega fyrir mótmæli.

Völsungur hélt út og vann dýrmætan sigur og eru þeir núna í næstneðsta sæti en KF er enn í 6. sæti.