KF tapaði naumlega gegn Selfossi

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Selfoss mættust í 2. deild karla í dag á Jáverk-vellinum á Selfossi. KF vann fyrri leik liðanna í sumar 2-1 og einnig báða leikina árið 2013 þegar liðin léku í sömu deild. KF mætti með sitt sterkasta lið en aðeins fjóra varmenn á bekknum, og engan varamarkmann.

KF skoraði fyrsta mark leiksins eftir rúman hálftímaleik. KF vann boltann á miðjunni og barst boltinn til Oumar Diouck sem gaf á Ljubomir sem hélt boltanum vel innan vítateigs Selfoss og gaf svo góða sendingu á Sachem (Theodore Develan Wilson) sem skoraði gott mark og kom KF í 0-1. Selfoss sótti hart að KF eftir markið og eftir eina góða sókn jöfnuðu þeir leikinn. Selfoss sótti upp hægri kantinn og léku inn að vítateig KF og gáfu góða stungusendingu sem endaði með fyrirgjöf á teiginn og marki. Gott spil í þessu marki en KF taldi leikmann Selfoss vera rangstæðann.

Selfoss átti svo góða skyndisókn á 43. mínútu sem endaði með aukaspyrnu á hættulegum stað nokkuð fyrir framan teiginn. Þór Þórðarsson leikmaður Selfoss tók góða spyrnu beint á Sindra markmann KF sem misreiknaði boltann og missti hann inn, og staðan orðin 2-1 fyrir heimamenn. Klaufalegt mark, en boltinn lenti fyrir framan markmanninn og skoppaði yfir hann og í netið.

Aftur refsaði Selfoss eftir snögga sókn skömmu fyrir hálfleik og áttu þeir gott og hratt spil sem endaði með marki innan vítateigs. Staðan 3-1 fyrir heimamenn í hálfleik og róðurinn þungur fyrir KF.

Í síðari hálfleik var meiri hiti í mönnum og fleiri og grófari tæklingar og hafði dómarinn nóg að gera. Grétar Áki átti eina slíka á 59. mínútu og fékk gult spjald en vildu heimamenn í stúkunni sjá rautt spjald þar, en sérfræðingarnir í stúkunni ráða engu.

Á 69. mínútu misstu heimamenn leikmann af velli með rautt spjald eftir gróft brot, og léku KF strákarnir einum fleiri til leiksloka.

Þegar um 10 mínútur voru eftir leiktímanum komst KF í góða sókn og barst boltinn aftur til Ljubomir sem gaf góð sendingu inn fyrir á Oumar Diouck sem kláraði færið vel og gaf KF líflínu, staðan orðin 3-2.

Selfoss vildi fá vítaspyrnu og fleira á lokamínútum leiksins en dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma neitt. Nokkrir harkalegir árekstrar urðu einnig á milli leikmanna og var leikurinn oft stopp.

Selfoss hélt út og vann nauman 3-2 sigur í þessum leik. Selfoss var meira með boltann heilt yfir og átti fleiri hættulegri færi. KF strákarnir léku ágætlega þrátt fyrir þetta tap í dag og var góð barátta hjá liðinu og spilið ágætt.