KF tapaði naumlega gegn KFG í Garðabæ

Íslandsmót 3. deildar karla í knattspyrnu hófst í gær með einum leik ,en í dag keppti KF og KFG á Samsungvellinum í Garðabæ. Liðin mættust tvisvar í deildinni í fyrra og vann KFG báða leikina en liðið endaði í 3. sæti deildarinnar í fyrra en KF í 5. sæti. Í liði KFG eru tveir fyrrum landsliðsmenn Íslands og fyrrum atvinnumenn í fótbolta, þeir Veigar Páll Gunnarsson og Garðar Jóhannsson. Þeir eru báðir á 38. ári og koma með mikla reynslu inn í lið KFG, en meðalaldur byrjunarliðs þeirra var 29,1 ár en KF var 22,8 ár. KF mætti með 4 varamenn, en það má gera 5 skiptingar í 3. deildinni og var því bekkurinn ekki fullskipaður, en það má hafa 7 leikmenn á bekknum.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik, en hinn reynslumikli Garðar Jóhannsson kom inn á sem varamaður á 69. mínútu. Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði KFG fyrsta mark leiksins og var það Finn Axel Hansen sem gerði það. Staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn og um 17. mínútur eftir. Veigar Páll fékk svo skiptingu á 79. mínútu, og Halldór Logi fór útaf fyrir Jakob Auðun hjá KF á sömu mínútu. KFG nýtti allar sýnar 5 skiptingar og voru með ferska menn síðustu mínútur leiksins meðan KF gerði aðeins eina skiptingu í leiknum. KFG hélt út og landaði sigri í fyrstu umferðinni, en KF fara heim með ekkert stig eftir þennan baráttuleik.