KF tapaði naumlega fyrir Augnablik – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Augnablik mættust í Fífunni kl. 15:00 í dag. Fífan er fótboltahöll í Kópavogi og heimavöllur Augnabliks. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn og var búist við jöfnum leik.

Augnablik sótti meira fyrstu 15 mínútur leiksins en KF sótti í sig veðrið og áttu góða kafla í fyrri hálfleik og sóttu talsvert að marki Augnabliks eftir fyrstu 15 mínúturnar. Bæði lið fengu nokkur hálffæri sem þeim tókst ekki að nýta í fyrri hálfleik.  Liðin voru þétt og mikil barátta einkenndi fyrri hálfleik og nokkur færi sem lofuðu góðu fyrir framhaldið. Augnablik notaði töluvert langar sendingar og kantana og reyndu að koma þannig með fyrirgjafir inn á teig KF, mest sóttu þeir upp hægri kantinn. Í fyrri hálfleik þá tókst KF ágætlega að loka á þetta spil Augnabliks. KF reyndi að sækja hratt á heimamenn og fór spilið mikið í að reyna finna Ljubomir Delic sem er stór og stæðilegur framherji. Hann átti einnig nokkur tækifæri sem ekki tókst að nýta og lét stöðugt finna fyrir sér og djöflaðist í varnarmönnum Augnabliks og átti góð hlaup sem sköpuðu mikla hættu. Það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta markið og kom það þegar um 5 mínútur voru til hálfleiks. Markið kom eftir gott spil og pressu frá Augnablik sem spiluðu sig í gegnum vörn KF. Halldór Ingvar markmaður KF hafði átt nokkrar góðar vörslur fram að þessu. Staðan var 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik.

Í síðari hálfleik opnaðist leikurinn mun meira og bættu heimamenn við tveimur mörkum og komust í 3-0 þegar um 30 mínútur voru eftir af leiknum. Halldór Logi og Austin Diaz voru settir inná og áttu þeir báðir eftir að koma við sögu. Halldór skorar fyrstu tvö mörk KF og kemur þeim í 3-2. Fyrra markið gerði hann á 73. mínútu og síðara á 83. mínútu. Nýi leikmaður KF, Austin Diaz jafnar leikinn í 3-3 í sínum fyrsta leik fyrir KF á 90. mínútu. Það voru hinsvegar heimamenn sem náðu að tryggja sér sigurinn í þessum leik þegar skammt var eftir og kom sigurmarkið á 93. mínútu. Lokatölur 4-3 fyrir Augnablik, og svekkjandi tap hjá KF í dag. Liðin hafa nú sætaskipti og dettur KF í 8. sætið þegar 7 umferðir eru eftir.

Næsti leikur KF er gegn Einherja á Ólafsfjarðarvelli, fimmtudaginn 26. júlí.

Augnablik-KF – Ljósmynd: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon
Augnablik-KF – Ljósmynd: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon

Augnablik-KF – Ljósmynd: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon