KF tapaði í Grindavík

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar spilaði gegn Grindavík á Grindavíkurvelli í kvöld. KF gerði eina breytingu á tapleiknum gegn Þrótti í síðustu umferð, en Sigurjón Fannar byrjaði leikinn í staðinn fyrir Kristján Vilhjálms.

Grindavík var sterkari aðilinn í leiknum og gerðu tvö mörk í fyrri hálfleik sem tryggðu þeim öll þrjú stigin. Alex Freyr skoraði fyrir Grindavík á 28. mínútu og átta mínútum síðar skoraði Mattías Örn og staðan 2-0 í hálfleik.

KF gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik en Nenad og Sigurjón Fannar voru teknir af velli fyrir Kristján Vilhjálms og Ottó Hólm. Grindavík stjórnuðu leiknum og unnu örugglega 2-0 á sínum heimavelli. Það eina sem KF fékk út úr þessum leik voru tvö gul spjöld.  Lið Grindavíkur er efst í 1. deild karla með 22 stig eftir 10 leiki og eru líklegir til þess að komast upp um deild. KF er í 9. sæti eftir 10 umferðir en geta misst Tindastól eða Þrótt upp fyrir sig, sigri þau sína leiki í 10. umferðinni.