Knattspyrnufélag Fjallabyggðar(KF) spilaði á móti Þór í gærkvöld í Norðurlandsmótinu/Kjarnafæðismótið og fór leikurinn fram í Boganum á Akureyri. Leikurinn endaði með 0-2 sigri Þórs. Nokkrir leikmenn spiluðu sinn fyrsta meistaraflokksleik með KF. Eitt rautt spjald og sex gul litu dagsins ljós í grófum leik.

Jóhann Helgi Hannesson skoraði fyrsta mark leiksins á 31. mínútu eftir mistök í vörn KF. Þórsarar höfðu fram að þessu verið meira með boltan en án þess að skapa sér færi.

Leikurinn var spilaður af nokkurri hörku og það dró til tíðinda í síðari hálfleik en á 57. mínútu var Jóhanni Helga vikið af leikvelli með rautt spjaldi eftir grófa tæklingu á markmanni KF. Þór var því einum færri í næstum hálftíma. Nokkrum mínútum síðar kom síðara mark Þórs en það gerði Sveinn Elías Jónsson á 63. mínútu.

Þórsarar voru í betra formi og unnu verðskuldaðan sigur á KF. Myndir frá leiknum má sjá hér.  Leikskýrslu KSÍ má sjá hér.