KF tapaði á Vopnafirði – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Einherji frá Vopnafirði mættust í gær í 3. umferð 3. deildar karla í knattspyrnu. Einhverji var án stiga eftir tvo leiki en KF með 3 stig eftir einn sigur. Nýr leikmaður KF, Jordan Damachoua er nýkominn með leikheimild var óvænt í byrjunarliðinu, en hann kemur frá Frakklandi, og samkvæmt óstaðfestum heimildum er hann varnarmaður, vanur að spila sem  hægri bakvörður og miðvörður. Hann virðist vera öflugur leikmaður á þeim upptökum sem er að finna á netinu af honum, og vonandi á hann eftir að styrkja leik liðsins í sumar. Annar erlendur leikmaður KF sem kom skömmu fyrir mótið var á bekknum, en það er Christopher Thor Oatman frá Kanada.

Heimamenn skoruðu fyrsta markið á 26. mínútu eftir að Halldór Ingvar markmaður KF  fer í úthlaup og vinnur boltann en svo er brotið harkalega á honum en dómarar dæmdu ekki brot og Númi Kárason skoraði fyrir Einherja í autt markið. Staðan 1-0 þrátt fyrir að KF hafi sótt mun meira án þess þó að skapa sér færi. Í síðari hálfleik stjórnuðu KF menn leiknum en náðu ekki að koma sér í færi til að ógna markinu. Heimamenn fá svo annað tækifæri á 72. mínútu þegar boltinn sleppur inn fyrir vörn KF, og aftur skorar Númi Kárason, staðan 2-0 og 15. mínútur eftir. Í síðari hálfleik fá heimamenn á sig sex gul spjöld, auk þess sem Viktor Daði Sævaldsson fékk tvö gul spjöld og brottvísun í framhaldinu á 91. mínútu leiksins. Alls voru gefin 10 gul spjöld í leiknum og þar af fékk KF þrjú spjöld. Heimamenn héldu út og unnu leikinn 2-0 þrátt fyrir að KF hafi verið að spila vel án þess þó að fá marktækifæri, og segja má að fyrsta mark leiksins hafi ekki átt að standa.

KF leikur næst við Sindra á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 2. júní kl. 16:00.

Umfjöllun í boði Arion banka í Fjallabyggð.